140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða aðeins þá skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gaf út í gær um stöðu heimilanna og möguleika á flötum afskriftum. Þar kemur fram að það rými sem bankarnir hafa er um 95 milljarðar kr. til að koma til móts við skuldug heimili samkvæmt þeim mun sem er á stöðu lánanna í gömlu og nýju bönkunum, en samkvæmt skýrslunni hafa bankarnir fært niður skuldir heimilanna um 144 milljarða. Þarna munar um 50 milljörðum kr.

Þá kemur einnig fram að ef menn vilja fara í flata niðurfærslu upp á 18,7% mundi það kosta um 200 milljarða kr. og samkvæmt niðurstöðu skýrslunnar er ljóst að þeir fjármunir þurfa að koma með beinum eða óbeinum hætti úr ríkissjóði.

Sömuleiðis segja skýrsluhöfundar að ríkið geti ekki skert lánasöfn fjármálastofnana án þess að ganga á eignarréttinn, þ.e. bótalaust. Hið sama gildir um skerðingar á innstæðum.

Mér þætti fróðlegt að eiga samtal við fulltrúa Framsóknarflokksins, hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson. Hvað telur hann að lesa megi úr þessari skýrslu? Eigum við ekki að horfa fram hjá þeirri lausn að tala fyrir almennum leiðréttingum og horfa frekar á stöðu einstakra hópa eins og þeirra einstaklinga sem búa við lánsveð, þeirra sem búa við þá stöðu að ábyrgðarmenn eru í erfiðri stöðu sökum stöðu þeirra? Eigum við þá ekki að horfa fram á veginn og reyna að koma til móts við þá sem verst eru staddir, t.d. í gegnum lausnir í skattkerfi eða annað, frekar en að halda áfram að einblína á þessa flötu niðurfærslu sem sagt er í skýrslunni að sé erfið leið, kostnaðarsöm fyrir skattgreiðendur í þessu ríki? Í skýrslunni er ekki síður sýnt að bankarnir hafa farið 50 milljarða fram úr því rými sem þeir höfðu (Forseti hringir.) þegar lánin voru flutt frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju.