140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar í dag aðeins að ræða um málefni aldraðra og öryrkja því að þeir hópar verða varla ræddir annar án hins. Ég er með hugleiðingar og fyrirspurn til hv. þm. Jónínu Rósar Guðmundsdóttur og langar til að spyrja um velferðarbrú Samfylkingarinnar sem var kynnt í síðustu kosningabaráttu. Hér átti að byggja velferðarbrú þannig að allir hefðu það gott í þessu samfélagi. Ég er með kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar og mig langar til að fá að lesa upp úr henni. Þarna var Samfylkingin búin að vera í ríkisstjórn í tvö ár, við skulum ekki gleyma því. Nú er hún bráðum búin að vera fimm ár í ríkisstjórn og hefur stundum verið mjög ábyrgðarlaus. Hér stendur í velferðarkafla bæklings Samfylkingarinnar sem var gefinn út fyrir síðustu kosningar, með leyfi forseta:

„Velferðarumbætur Samfylkingarinnar leiddu til þess að persónuafsláttur, barnabætur og vaxtabætur voru hækkaðar, til hagsbóta fyrir þá tekjuminni, og lífeyrisþegum tryggður verðtryggður lífeyrir. Þeir sem minnst hafa milli handanna búa nú að velferðarumbótum Samfylkingarinnar frá undanförnum árum.“

Þetta var árið 2009.

Ég spyr: Hvað gerðist þegar norræna velferðarríkisstjórnin var stofnuð árið 2009? Hvar er velferðarbrúin og hvers vegna gerðist það þegar vinstri flokkarnir komu í ríkisstjórn að þá var ruðst inn í ellilífeyri þeirra sem þurfa á honum að halda og honum kippt úr sambandi? Ekki nóg með það, heldur var hann skertur í fyrsta sinn, þessar föstu greiðslur sem (Forseti hringir.) eldri borgarar höfðu. Hvar er velferðarbrúin, hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir?