140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Já, hér er stórt spurt og ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á málefnum aldraðra og öryrkja. Við erum einmitt að sigla inn í Evrópuár aldraðra og vonandi verða málefni þess hóps oft á dagskrá þetta árið.

Ég er ánægð með að geta sagt hv. þingmanni að starfshópur velferðarráðherra sem hefur löggjöf um almannatryggingar í endurskoðun hefur lokið kaflanum um aldraða. Það hefur náðst algjör samstaða í því máli og allir mjög ánægðir með þá niðurstöðu þannig að ég vona svo sannarlega að þegar það mál kemur inn til þings, vonandi á vorþingi, muni hv. þingmaður lofsyngja það því að það er unnið í fullri sátt. Við höfum því miður ekki náð svo langt með öryrkjana en við erum að taka til við þann kafla, vonandi með góðri sátt við öryrkja. Við þurfum að ræða við þau og fá þau aftur að borðinu til okkar þannig að við getum unnið þann kafla í eins mikilli sátt og þann kafla sem við höfum unnið um aldraða.

Í tengslum við velferðarbrúna þurftum við því miður að taka dálítið til áður en við fórum í brúarsmíðina. (Gripið fram í: Hér varð hrun.) Hér varð örlítið vesen í efnahagslífinu (Gripið fram í.) en eftir sem áður var meining okkar að gera allt sem við gætum í velferðarmálum. Mig langar til að minna hv. þingmann á að það hefur talsvert minna verið skorið niður í velferðarmálum en öllum öðrum málaflokkum og mig langar líka til að biðja hv. þingmann um að skoða tölulegar staðreyndir sem sýna fram á að aldraðir og öryrkjar hafa það talsvert betra en þeir höfðu áður. Bætur þeirra hafa hækkað um (Forseti hringir.) tugi prósenta og mér finnst allt í lagi að þær staðreyndir séu hafðar með í málinu.