140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Eins og síðasti ræðumaður er ég hingað komin til að fjalla um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Ég átti þess kost að lesa hana í drögum en þarf að fara betur yfir hana til að sjá hverju hefur verið breytt. Af drögunum sýndist mér eiginlega það eina góða við hana vera að hún var svo hrikalega illa unnin að það var svo auðvelt að fletta ofan af henni. Hún er uppfull af misvísandi tölum, talnamengun, tölum sem passa ekki saman. Yfirlýstur tilgangur forsætisráðherra þann 4. október þegar þessi vinna var sett af stað var að komast að því í eitt skipti fyrir öll hvert svigrúmið væri. Niðurstaðan í skýrslunni er að birt er fréttatilkynning Samtaka fjármálafyrirtækja um þetta svigrúm. Það er niðurstaðan.

Það eru engin ný gögn skoðuð. Ekki hefur farið fram nein sjálfstæð óháð rannsókn og hinni æpandi spurningu um hvað það kosti að gera ekki neitt, hvað það kosti að hafa hlutina í þessum farvegi, er algerlega ósvarað. Hvað kostar að gera ekki neitt? Ég er ekki sammála Magnúsi Orra Schram sem kom hingað áðan og talaði um að fara þyrfti í einhverja enn þá sértækari hópa. Vissulega eru hópar eins og lánsfjárhópurinn sem þurfa ef til vill sértækar lausnir en ef við ætlum að fá réttláta og sanngjarna niðurstöðu verðum við að fara í almennar leiðréttingar. 60 þús. heimili á Íslandi eru með neikvæða niðurstöðu, þau eru gjaldþrota í raun og veru.

Þegar maður vinnur skýrslu verður maður að huga að gögnum og ef maður setur inn rusl fær maður út rusl. Og þessi skýrsla á bara að fara í ruslið.