140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ræða skýrslu Hagfræðistofnunar hérna en mér finnst orðfærið sem hv. þingmenn nota um þá skýrslu ansi gassalegt, svo ekki sé meira sagt. Það sem ég ætla að gera að umræðuefni er yfirlýsing hv. þm. Skúla Helgasonar sem fjallaði um þá fyrirætlan stjórnarinnar að setja á fót hóp til að reyna að rekja hver auðlindaarðurinn væri á Íslandi. Það er í sjálfu sér ágætt. Þeim orðum fylgdu yfirlýsingar um að alls ekkert hefði verið gert í því og nú væri loks farið að tala um það. Ég bendi hv. þingmanni á að í 25 ár hefur þetta verið mjög lifandi umræða á Íslandi.

Jafnframt hefur verið sagt að auðlindarentan hafi runnið beint til hagsmunaaðila án þess að þjóðin fái að njóta hennar. Ef við tökum til dæmis fiskveiðarnar skiptist auðlindaarðurinn þar í þrennt, á milli fiskimannanna sem fá í kringum 40% af arðinum, útgerðanna sem fá um það bil önnur 40% og síðan ríkisins sem fær í kringum 20%. Aftur á móti rennur auðlindaarðurinn sem bæði sjómennirnir og útgerðin fær að 30–40% leyti aftur til ríkisins (Forseti hringir.) í gegnum skattkerfið.