140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Aðeins um verðtrygginguna, ég er sammála hv. þingmanni með að verðtryggingin er hábölvuð og að við þurfum að eyða henni með einhverjum hætti. En ég er ekki sammála hv. þingmanni, frekar en margir aðrir, bæði fræðimenn og ýmsir sem hafa talað um þetta mál, um að það þurfi endilega að taka upp annan gjaldmiðil til þess. Í þinginu hafa verið lögð fram mál og frumvörp um hvernig hægt væri að taka verðtrygginguna úr sambandi og afnema hana þegar upp verður staðið. Á það hefur verið bent og lagðar fram tillögur þar um.

Mig langar samt að halda áfram að tala um stöðu heimilanna sem tengist þessu að sjálfsögðu. Það gafst tækifæri til að láta miklu meira af afslætti nýju bankanna renna til heimilanna, það var þegar núverandi ríkisstjórn einkavæddi bankana upp á nýtt. Þá var hins vegar ákveðið, eins og kom fram í skýrslu fjármálaráðherra í þinginu, að láta kröfuhafana njóta þess, ekki heimilin. Ábyrgðin á því að það svigrúm sem hugsanlega var til staðar var ekki nýtt er algjörlega ríkisstjórnarinnar. En er það virkilega þannig að af þeim 170 milljörðum, eða hvað það er sem bankarnir hafa haft í hagnað frá hruni, sé ekki hægt að ná í neitt til að jafna skuldastöðuna? Ég held að við eigum að skoða vandlega hvort við getum nýtt eitthvað af þeim fjármunum.

Hitt er svo annað mál sem bæði sá er hér sendur hefur talað um og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir benti á áðan: Hvað kostar að gera ekki neitt? Hvað kostar að gera ekkert fyrir þessi 50% heimilanna sem eru við það að kikna undan greiðslubyrðinni og eiga varla fyrir því sem þau þurfa að greiða af? Það eru 60 þús. heimili eins og kom fram. Hvað kostar að gera ekki neitt? Ég hugsa að auglýsingin frá innheimtufyrirtækinu, ekki gera ekki neitt, eigi nákvæmlega við í þessu tilfelli. Ég vona að ríkisstjórnin klifri upp í turninn sinn og skoði vandlega hvort ekki sé ástæða til að gera ekki ekki neitt.