140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég má til með að taka aftur til máls og halda áfram með þetta mál um eldri borgara og öryrkja vegna þess að í svari hv. þm. Jónínu Rósar Guðmundsdóttur sem er varaformaður velferðarnefndar kom fram að allir væru mjög ánægðir með þá skýrslu sem er verið að vinna núna á vegum nefndarinnar og það yrði alveg hreint afskaplega mikil ánægja með það hjá eldri borgurum og öryrkjum þegar sú skýrsla verður kynnt.

Virðulegi forseti. Ég bendi á að eldri borgarar og öryrkjar borða ekki pappír. Þessi skýrsla sýnir fyrst og fremst hvað þessi ríkisstjórn er langt frá þeim markmiðum sem sett voru fyrir kosningar. Hér berast fréttir af því að eldri borgarar og öryrkjar eigi vart til hnífs og skeiðar. Ég var mjög slegin yfir því þegar einn af okkar minnstu bræðrum kom fram í fjölmiðlum og óskaði þess helst að það væru til pillur til að hann gæti endað líf sitt. Svona er ástandið úti í þjóðfélaginu. Margt eldra fólk er eitt heima og fær varla mat og fær varla heimsóknir, fær varla heimsóknir inn á stofnanir. Þetta er hin norræna velferðarvinstristjórn. (Gripið fram í.)

Ég minni aftur á að hér ruddist hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, sem hefur verið talsmaður þessa hóps um árabil, hún notaði tækifærið þegar hún var orðin forsætisráðherra til að ráðast á grunnbætur þessa hóps. Í kosningabaráttunni talaði hún um velferðarbrú, hún talaði um að allir ættu að hafa það jafnt og úr stefnuskránni tek ég beint upp, með leyfi forseta, að Samfylkingin hafi lagt „áherslu á að rétta hlut aldraðra og öryrkja gagnvart almannatryggingum, tryggja aðgengi allra að heilbrigðiskerfinu óháð efnahag“. Ég lýsi frati (Forseti hringir.) á norrænu velferðarvinstristjórnina. Þetta er á ábyrgð hæstv. forsætisráðherra sem hefur verið talsmaður þessa hóps um árabil. Sú stefna er gjaldþrota.