140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[16:12]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um heimild fyrir ríkisstjórn Íslands til að samþykkja hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og til að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á stofnskrá sjóðsins. Málið snýst um það að í kjölfar 14. endurskoðunar á stofnskrá sjóðsins var tekin ákvörðun í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að auka stofnfé sjóðsins. Við Íslendingar eigum okkar fulltrúa í stjórn sjóðsins, mig minnir að fulltrúarnir séu í kringum 25 og við eigum þar einn fulltrúa og hann hefur sem sagt gefið samþykki sitt fyrir þessu, auðvitað að höfðu samráði við íslensk stjórnvöld og væntanlega utanríkisráðuneytið.

Fjórtánda endurskoðun stofnskrárinnar fól í sér að atkvæðavægi þjóða var breytt og nýmarkaðsríkin fengu aukið vægi. Í framhaldi af því var ákveðið að auka við stofnfé sjóðsins. Ákveðin formúla er notuð til að ákvarða hversu mikið hvert ríki á að greiða til sjóðsins í stofnfjáraukningu þannig að það er ekki alveg rétt sem kom fram í máli hv. þm. Lilju Mósesdóttur að þetta sé niðurstaða úr einhverju pólitísku karpi. Að vísu er það rétt hjá hv. þingmanni að ákvörðun um að auka stofnfé sjóðsins er örugglega niðurstaða úr einhverjum samningum en það hversu mikið af stofnfjáraukningunni lendir í hlut Íslands er einfaldlega ákvarðað út frá svokallaðri kvótaformúlu og þá er ekki litið til þess hverjir menn eru eða einhvers af því tagi heldur ráða óhlutdrægir þættir.

Í stuttu máli felst breytingin í því að stofnfé Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er aukið og Íslendingar munu miða við gengi þess tíma sem frumvarpið var skrifað á og nemur nýtt framlag Íslands rúmum 37 milljörðum. Þar af eru 9 milljarðar sem greiddir eru úr gjaldeyrisvarasjóði Seðlabanka Íslands til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í myntinni SDR eða sérstökum dráttarréttindum. Þessir peningar fara ekki út úr gjaldeyrisvarasjóðnum í þeim skilningi að hann minnki heldur er gefin heimild til að bóka þá sem hluta af gjaldeyrisvarasjóði vegna þess að Íslendingar geta dregið á þessa 9 milljarða aftur og borgað fyrir það vexti í SDR á hverjum tíma, ég held að þeir séu í kringum 0,15% núna, sem sagt afar hagstæðum kjörum.

Afgangurinn, 3/4 af þessum 37 milljörðum, er í íslenskum krónum sem geymdar eru í Seðlabanka Íslands. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn getur aftur á móti ekki dregið á þessa 27 milljarða þannig að það fé bókast bara sem skuldbinding við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vegna þess að íslenska krónan telst ekki vera viðskiptamynt sjóðsins, hún er ekki hluti af því sem kallast „Financial Transaction Program“ sjóðsins en því prógrammi tilheyra einungis sterkustu og stærstu myntir heims, jenið, evran og dollarinn. Það er því afar ólíklegt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn muni draga á íslenskar krónur í framtíðinni, það er ólíklegt að íslenska krónan verði hluti af þessu prógrammi, en ef svo yrði yrði aldrei dregið á þessa 27 milljarða nema að undangengnum viðræðum á milli íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það eru því afar litlar líkur á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn muni nýta sér þetta, líkurnar eru auðvitað einhverjar en þær eru litlar.

Hitt er annað mál, og ég var fremur ósáttur við það, að látið var eins og áhættan væri engin við þetta, bæði í tali embættismanna og hvernig málið var borið fram í nefndinni. Auðvitað er áhætta til staðar. Það að vera aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og leggja inn stofnfé í hann er ekki ólíkt því þegar maður kaupir sér stofnfé í sparisjóði. Eins og við vitum var Íslendingum, fyrir hið mikla efnahagshrun sem varð í október 2008, talin trú um að algjörlega áhættulaust væri að eiga stofnfé en annað kom á daginn, þannig að ég tek því nú með ágætum fyrirvara að þetta sé algjörlega áhættulaust. Ég tel aftur á móti ekki miklar líkur á því að sjóðurinn fari á hausinn en þær eru samt til staðar þannig að ég tel rétt að gera grein fyrir því.

Við Íslendingar höfum nýtt okkur aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins nokkrum sinnum frá því að við urðum stofnaðilar árið 1945, eftir hinn fræga fund í Bretton Woods, og það hefur komið okkur mjög til góða, nú síðast haustið 2009 en óhætt er að segja að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi þá komið okkur til bjargar. Ólíkt hv. þm. Lilju Mósesdóttur tel ég að koma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hingað hafi orðið okkur til góðs og ég bið guð að hjálpa okkur ef hans hefði ekki notið við, með þá ríkisstjórn sem hefur verið við völd frá því í byrjun árs 2009, þannig að margt gott hefur komið af því.

Aftur á móti er ég sammála hv. þm. Lilju Mósesdóttur um það, og ég sagði það margoft í ræðustóli í Alþingi, að of bratt var farið í niðurskurðinn. Ég tel að niðurskurðurinn, eins og hann kom til í byrjun eða réttara sagt á öðru ári í prógramminu, hafi dýpkað niðursveifluna og það hafi verið óæskilegt. Það er algjörlega ljóst öllum sanngjörnum mönnum og konum sem horfa á það sem gerðist á Íslandi að bratt var farið í hlutina að ætla að ná aftur jafnvægi á ríkissjóði og afgangi og byrja að borga niður skuldir og annað slíkt á innan við þrem árum eftir jafnstórkostlegt hrun og varð hér. Um það erum við hv. þm. Lilja Mósesdóttir sammála.

Enda kom á daginn að ekki var hægt að standa við þetta prógramm. Ríkisstjórnin framlengdi það um eitt ár og þrátt fyrir að ég hafi að hluta til verið sammála því að framlengja það held ég að sú ætlun hafi komið of seint fram og mjög óhönduglega hafi verið staðið að því. Ég held að það hefði verið hægt að gera þetta mun betur ef menn hefðu verið aðeins raunsærri, til dæmis eftir að komið var í ljós að gjaldeyrishöft sem afnema átti í byrjun árs 2009 yrðu ekki afnumin nærri strax. Við erum enn að glíma við þau þrem árum seinna, þannig að ég tel að að vissu leyti hafi verið óraunhæft hvernig staðið var að þessu.

Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og viðskiptanefnd skrifum undir þetta nefndarálit með fyrirvara og ég held að rétt sé að gera grein fyrir því af hverju fyrirvarinn stafar. Ég held að það hljóti að vera orðið ljóst af ræðu minni núna að við erum sammála því að fara út í stofnfjáraukninguna og við erum sammála því að taka þátt í henni á fullan hátt eins og við höfum alltaf gert allt frá því í Bretton Woods 1945. Ég tel að ábatinn af því að vera fullgildir meðlimir í þessu samstarfi sé mun meiri en gallarnir sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir sér á þessu en ég virði samt sjónarmið hennar.

Fyrirvarinn sem við hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson gerum við þetta frumvarp snýr fyrst og fremst að málsmeðferðinni. Málsmeðferðin í þinginu var í upphafi afar óvönduð og vægast sagt klaufaleg. Málið var kynnt fyrir nefndinni af embættismönnum efnahags- og viðskiptaráðuneytisins eins og þetta væri eitthvert smámál sem þyrfti enga umfjöllun og ekki voru kallaðir til gestir eða neitt. Skrifað var nefndarálit sem var partur úr blaðsíðu og allir tóku þessu einhvern veginn þannig að þetta væri ekki mikið mál og auðvelt að samþykkja það. Síðan kom í ljós á milli 1. og 2. umr. að málið var mun stærra, í því fólst áhætta og um slíkar upphæðir að ræða að ekki væri hægt að samþykkja það án umræðu. Þetta var eitt af stóru átakamálunum í lok haustþingsins.

Það endaði þannig að samkomulag varð milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að málið færi til ítarlegrar umfjöllunar aftur í efnahags- og viðskiptanefnd sem það og gerði. Seðlabankinn kom á nokkra fundi með nefndinni og greiningar- og ráðgjafarfyrirtækið Gamma var fengið til að gera sérstaka úttekt á málinu auk þess sem einstakir nefndarmenn kynntu sér málið mun betur upp á eigin spýtur eins og til dæmis hv. þm. Lilja Mósesdóttir og reyndar ég líka.

Eftir að hafa farið í gegnum þetta erum við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni sannfærðir um að sú áhætta sem fylgir þessu máli sé ásættanleg en við gerum aftur á móti fyrirvara um þá meðferð sem málið fékk. Við bendum á og viljum undirstrika að það er mjög mikilvægt þegar svona upphæðir eru í húfi, að þingmönnum sé sannarlega gerð grein fyrir þeirri áhættu sem felst í málinu og afleiðingunum af því að fara ekki í málið eða þá að samþykkja það. Ég held að við getum lært af þessu máli að málsmeðferð verður að vanda mun betur en hér var gert.

Eins og ég hef sagt í áður þessari ræðu stöndum við hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, að nefndarálitinu og munum mæla með því við þingflokk Sjálfstæðisflokksins að þingmenn greiði frumvarpinu atkvæði sitt. Það gerum við fyrst og fremst vegna þess ábata sem við sjáum í frumvarpinu og vegna þess að við viljum ekki breyta þeim samskiptum sem við höfum átt við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þeim möguleikum sem felast í því að vera fullgildir aðilar að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í gegnum stofnframlög.