140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[16:30]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að biðja hv. þm. Lilju Mósesdóttur innilega afsökunar á þeim ummælum mínum að hún hafi verið á móti komu sjóðsins. Ég held að hægt sé að orða það aðeins öðruvísi og segja að hún hafi verið á móti aðferðafræðinni sem síðan var beitt. Ég held að hv. þingmaður geti vel verið (Gripið fram í.) sammála því.

Hv. þingmaður bendir á að í ræðu minni áðan hafi ég sagt að við séum ekki ósammála um að farið sé of hratt í að ná halla á ríkissjóði niður og að byrja að borga niður skuldir. Það er alveg hárrétt, en það er aftur á móti ekki rétt hjá hv. þingmanni að segja að ég hafi verið á móti niðurskurðinum og slíku, alls ekki, ég var miklu frekar á móti þeim gríðarlegu skattahækkunum sem fylgdu því að leiða ríkissjóð að hallalausum fjárlögum.

Varðandi skuldabyrðina man ég eftir því að mikil umræða var um hana en ég minni hv. þingmann á að ég reiknaði út skuldabyrði Íslands. Ég var í viðtali í Kastljósi ríkissjónvarpsins í janúar 2009 og það viðtal vakti þó nokkra athygli. Það reyndust vera réttir útreikningar hjá mér, ég komst að sömu niðurstöðu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerði um ári síðar.