140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

314. mál
[16:59]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna nýrra laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011.

Hinn 17. september sl. samþykkti Alþingi ný heildarlög um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/ 2011, en þar segir í 1. málsgrein 4. gr., með leyfi forseta:

„Stjórnarmálefni ber undir ráðuneyti eftir ákvæðum forsetaúrskurðar, samanber 15. gr. stjórnarskrárinnar, sem kveðinn er upp samkvæmt tillögu forsætisráðherra.“

Samhliða samþykkti Alþingi lög, nr. 126/2011, um breytingar á ýmsum lögum vegna heildarendurskoðunar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Með þeim lögum voru fagheiti ráðherra og ráðuneyta felld úr gildandi lögum. Við gildistöku síðarnefndu laganna, 28. september sl., tók jafnframt gildi nýr forsetaúrskurður, nr. 125/2011, þar sem kveðið er á um framangreinda skiptingu stjórnarmálefna.

Á septemberþingi voru eigi að síður samþykkt nokkur lög þar sem fagheiti ráðherra og ráðuneyta koma fram. Skýringin er væntanlega sú að ekki náðist að breyta viðkomandi frumvörpum í tæka tíð til samræmis við þá stefnumörkun Alþingis sem fram kom í fyrrgreindri lagasetningu. Með þessu frumvarpi er lagt til að þeim lögum verði breytt til samræmis við framangreinda ákvörðun Alþingis og fagheiti hlutaðeigandi ráðherra og ráðuneyta felld brott og þess í stað vísað til málaflokka í samræmi við forsetaúrskurðinn. Við samningu frumvarpsins var haft samráð við ráðuneyti í þeim tilvikum þegar tilvísun til málaflokka er nauðsynleg.

Frumvarp þetta felur ekki í sér efnisbreytingar, málefni verða ekki færð á milli ráðuneyta og ekki verða gerðar breytingar á forsetaúrskurði.

Líkt og í frumvarpi sem síðar varð að lögum, nr. 126/2011, er í þessu frumvarpi lagt til að gerðar verði breytingar á lögum þar sem fagheiti ráðherra eða ráðuneytis kemur fyrir. Í stað fagheitisins komi hugtakið ráðherra eða ráðuneyti. Í þeim lögum þar sem tveir eða fleiri ráðherrar koma við sögu er vísað til þess eða þeirra ráðherra sem ekki bera meginábyrgð á framkvæmd laganna með því að tilgreina það stjórnarmálefni sem farið er með. Þegar augljóst er af samhengi viðkomandi ákvæðis hvaða stjórnarmálefni er um að ræða er látið duga að vísa til hlutaðeigandi ráðherra eða hlutaðeigandi ráðuneytis.

Frumvarpið tengist ekki fyrirhuguðum breytingum á ráðuneytum sem nú eru til skoðunar en vegna þeirra hyggst ég leggja fram þingsályktunartillögu síðar á þessu þingi. Breytingar sem nú eru til skoðunar eru stofnun atvinnuvegaráðuneytis, sem lengi hefur verið í bígerð, og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Fyrirhugaðar breytingar eru í samræmi við álit meiri hluta allsherjarnefndar Alþingis við samþykkt laga, nr. 121/2010, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands.

Til að tryggja fagleg vinnubrögð samþykkti ríkisstjórnin að setja á fót sérstaka ráðherranefnd um stjórnkerfisumbætur sem í eiga sæti forsætis-, utanríkis-, sjávar-, landbúnaðar-, efnahags-, umhverfis- og fjármálaráðherra til að fara yfir þessar breytingar.

Ég ítreka enn að þetta frumvarp sem hér er til umræðu er óviðkomandi þessu máli og legg til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.