140. löggjafarþing — 48. fundur,  25. jan. 2012.

upplýsingalög.

366. mál
[17:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að hafa mælt fyrir þessu máli. Því er ekki að neita að lög um upplýsingar skipta gríðarlega miklu máli. Þau lög sem tóku gildi 1997 hafa staðist ágætlega tímans tönn og reynst nokkuð vel. Það er hins vegar með þau lög eins og önnur að það er eðlilegt að taka þau til endurskoðunar eftir því sem bæði tækni og samfélaginu fleytir fram.

Það er eitt sem verður þó að varast í þessari umræðu, það að menn láti stjórnast af einhvers konar upphrópunum eða tíðaranda. Það verður að horfa á þessi lög langt fram í tímann því að þau þurfa að geta enst eins lengi og núgildandi lög hafa gert. Hér er gjarnan hrópað mikið um að allt eigi að vera uppi á borðum, að upplýsa eigi um allt og ástunda enga leyndarhyggju. Svo er kannski sama fólk með undirskriftasöfnun gagnvart forseta Alþingis sem ekki má segja hver er á. Umræðan er greinilega vandmeðfarin.

Við þurfum að svara nokkrum spurningum þegar við förum í gegnum málið, herra forseti. Ég held að við þurfum að passa okkur á því að setja ekki lög sem færa ákvarðanatöku frá hinum venjubundna vettvangi inn í hliðarherbergi eða út í bæ vegna þess að lögin komi hreinlega í veg fyrir að hægt sé að bóka ákvarðanir á þeim stöðum sem við á. Við vitum að vettvangur þar sem ýmis málefni eru rædd hreinskilnislega þarf að vera til en það þarf að finna meðalveg og sýna stillingu.

Eins þarf að fara mjög vandlega yfir það hvaða gögn á að birta og hvenær eins og ég sé að er fjallað um í þessu frumvarpi. Þetta segi ég vegna þess að það geta verið málefni er varða hreinlega öryggi ríkisins eða eitthvað slíkt sem menn sjá ekki alveg fyrir. Mér dettur í hug viðtal fyrir skömmu sem kostaði einn Norðmann embættið af því að það datt út úr honum að Norðmenn hefðu leyniþjónustumenn í Pakistan. Þessar upplýsingar duttu upp úr viðkomandi í viðtali en það mun greinilega reynast Norðmönnum þungur róður að vinna úr þessu. Við þurfum að hafa ýmislegt svona í huga.

Herra forseti. Þetta mál er komið endurbætt inn í þingið. Ég vona að góður tími verði gefinn til að fara yfir það. Eflaust mun nefndin gera einhverjar breytingar á því en ég ítreka þessa tvo, þrjá punkta sem ég nefndi, menn þurfa að forðast að færa ákvarðanir frá þessum venjubundna vettvangi þar sem þær eru teknar og eins þarf að fara vel yfir það við hvaða gögn þetta á.