140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

embætti forseta Alþingis.

[10:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vildi gjarnan heyra álit hæstv. forsætisráðherra á í framhaldi af umræðu undanfarinna daga.

Í fyrsta lagi: Gerir hæstv. forsætisráðherra sér grein fyrir því að forseti Alþingis er kjörinn af þinginu en er ekki spil sem hæstv. forsætisráðherra getur notað í einhvers konar ráðherrakapli eins og skilja mátti af ummælum hennar? Hæstv. forsætisráðherra hefur meira að segja gefið í skyn að hæstv. forseti Alþingis verði látinn víkja hafi hún frumkvæði að slíku. Gerir hæstv. forsætisráðherra sér sem sagt ekki grein fyrir því að það er ekki ríkisstjórnin og ekki forsætisráðherrann sem velur forseta þingsins? Getur hæstv. forsætisráðherra þá jafnvel gengið enn lengra og lýst yfir stuðningi við hæstv. forseta þingsins því að hæstv. forsætisráðherra er líka þingmaður og ef kæmi til atkvæðagreiðslu um stöðu þingforseta þá hefði hæstv. forsætisráðherra eitt atkvæði eins og hinir þingmennirnir 62? Mundi hæstv. forsætisráðherra styðja núverandi hæstv. forseta Alþingis?

Einnig langar mig að biðja hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur að vera góð við hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson því að hann hefur verið mjög illa fyrir kallaður undanfarna daga, ekki liðið nógu vel. Þetta birtist á ýmsan hátt. Hann er farinn að tala sér þvert um geð, jafnvel ráðast á vini sína og farinn að gera það sem sænskir vinir hæstv. forsætisráðherra mundu kalla að „projekta“, þ.e. farinn að heimfæra eigin vandamál og vandamál síns flokks yfir á aðra. Allt eru þetta einkenni þess að hæstv. utanríkisráðherra sé ekki nógu vel fyrir kallaður og því vil ég biðja hæstv. forsætisráðherra að gera mér þann greiða að vera góð við utanríkisráðherrann sinn næstu daga (Forseti hringir.) að minnsta kosti.