140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

embætti forseta Alþingis.

[10:35]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta er ein sérkennilegasta ræða sem ég hef heyrt í þinginu, ég verð að segja eins og er. Það er undarlegt hvernig hv. þingmaður stillir upp orðum mínum í garð forseta þingsins. Ég verð að segja að bæði hvernig hann gerir það og hvernig fjölmiðlar hafa gert það er með ólíkindum. Það er gjörsamlega snúið út úr orðum mínum. Ég hef aldrei sagt að svo gæti farið að forseti Alþingis yrði látin víkja, ég hef aldrei sagt það. Ég fór bara yfir málið eins og það er, að stjórn þingsins viðkemur ekki forsætisráðherra sem slíkum, eins og um var spurt í fjölmiðlum.

Allir vita hvernig val forseta fer fram. Í þessu tilviki kom forseti þingsins í hlut Samfylkingarinnar og ég gerði tillögu um Ástu R. Jóhannesdóttur sem forseta þingsins og ég hef engar breytingar lagt til á því. Það verður þingmaðurinn að hafa í huga.

Ég vil líka segja að hjá Samfylkingunni verða þeir sem gegna æðstu embættum eins og ráðherrastöðum og forseta þingsins að gangast undir það að breytingar geta orðið á kjörtímabilinu.

Ég vil spyrja hv. þingmann að því hvernig stóð á því að hann bar það ekki undir þingið eða stjórnarandstöðuna þegar honum datt í hug að skipta út varaforseta sínum í haust. Í lögum eða þingsköpum á kosning varaforseta fastanefnda að gilda fyrir allt kjörtímabilið. Hvernig stóð á því að skipt var út varaforseta hjá hv. þingmanni og formanni Framsóknarflokksins? (Gripið fram í.)

Á sínum tíma var skipt út forseta hjá Sjálfstæðisflokknum á miðju kjörtímabili. Það var ekkert borið undir stjórnarandstöðuna. Af hverju ætti sérstaklega að gera það í þessu (Forseti hringir.) tilviki?

Þetta allt er hin undarlegasta umræða sem hér fer fram og í fjölmiðlum og mér lögð orð í munn sem ég hef aldrei sagt.