140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

staða kjarasamninga.

[10:42]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst að hv. þingmaður ætti að fara yfir og bera saman loforð og efndir í þessu efni áður en hann kemur í ræðustól og talar um svik. Af þeim 44 atriðum sem ríkisstjórnin féllst á að fara í hefur rúmlega helmingur þeirra gengið áfram og 19 eru í vinnslu. Ég hygg að engin ríkisstjórn, hversu langt sem þingmaðurinn leitar aftur, hafi ráðist í aðrar eins aðgerðir og kostnaðarsamar til að tryggja stöðugleika hér næstu þrjú árin. Ég hygg að þær aðgerðir sem við höfum farið í hafi kostað 30–40 milljarða. Meðal annars var farið í verðtryggingu á persónuafslættinum en hv. þingmaður ætti að líta til sögu Sjálfstæðisflokksins í því efni. Hækkun bóta almannatrygginga var veruleg, 12% hækkun á árinu, sömuleiðis á atvinnuleysisbótum. Jólabónus til atvinnulausra var 1.300 milljónir sem aldrei var gert í tíð Sjálfstæðisflokksins. Réttarstaða starfsfólks á vinnumarkaði sem er atvinnulaust hefur verið styrkt verulega með því meðal annars að fara út í aðgerðir sem tengjast námi þeirra sem eru atvinnulausir.

Mér finnst ósanngjarnt hvort sem það er hv. þingmaður, ASÍ eða verkalýðshreyfingin sem heldur því fram að hér hafi ekki verið neitt annað en svik á ferðinni af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Hv. þingmaður veit það mætavel, hann er reyndur þingmaður, að það er ósanngjarnt í fyllsta máta að halda því fram að ríkisstjórnin hafi svikið loforð sín. Mörg af þeim hafa verið erfið, eins og lífeyrissjóðsmálin. Það er ekkert smámál að taka á því að rétta við A-hluta og B-hluta ríkissjóðs sem kostar hundruð milljarða. Það verður ekki hrist fram úr erminni á einu ári. Það tekur tíma og menn verða að hafa þolinmæði í það, en eitt er víst að vilji ríkisstjórnarinnar stendur að fullu til þess að klára það mál og önnur þau mál sem hún hefur lofað að fara í. (Forseti hringir.) Vegaframkvæmdir hér á Suðvesturlandi er það eina sem hægt er herma upp á ríkisstjórnina sem ekki hefur gengið eftir og skýringuna á því þekkir þingmaðurinn líka mætavel, það náðist ekki samstaða um veggjöld.