140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

staða kjarasamninga.

[10:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra er í rauninni að segja okkur að verkalýðshreyfingin viti ekki neitt í sinn haus, hún fari hér með hreint fleipur. Hæstv. forsætisráðherra fer af stað með sína gömlu þulu um að víst hafi ríkisstjórnin staðið við öll sín loforð en það liggur fyrir að heildarsamtök launafólks, Alþýðusamband Íslands og verkalýðshreyfingin eins og hún leggur sig, telja að hæstv. ríkisstjórn hafi svikið þessi loforð sem hún gaf sem voru forsenda kjarasamninganna. Hvers vegna skyldi verkalýðshreyfingin hafa íhugað mjög alvarlega að framlengja ekki kjarasamningana? Það er vegna þess að verkalýðshreyfingin er þeirrar skoðunar, og ætti kannski að hafa einhverja hugmynd um það sem hún er að tala um, að hæstv. ríkisstjórn hafi svikið öll þessi loforð. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. forsætisráðherra að tala eins og ekkert hafi gerst og verkalýðshreyfingin viti ekki neitt í sinn haus. Verkalýðshreyfingin veit að sjálfsögðu hvað hér er um að ræða.

Ég ítreka spurningu mína til hæstv. forsætisráðherra: (Forseti hringir.) Telur hæstv. forsætisráðherra að verkalýðshreyfingin sé núna hluti af stjórnarandstöðunni, sé stjórnarandstaða eins og hún sagði um Samtök atvinnulífsins? Telur hæstv. forsætisráðherra að verkalýðshreyfingin sé á algjörum villigötum og að það sem hún segir (Forseti hringir.) sé allt saman rangt?