140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

embætti forseta Alþingis.

[10:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er freistandi að fara inn í þessa umræðu um mat verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda á efndum ríkisstjórnarinnar, en ég ætla ekki að gera það að sinni. Við höfum séð í fjölmiðlum það sem verkalýðshreyfingin og vinnuveitendasamtök hafa sagt í þeim efnum og svo heyrum við að hæstv. forsætisráðherra telur það allt saman misskilning.

Í framhaldi af umræðu sem átti sér stað áðan milli hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og hæstv. forsætisráðherra vildi ég aðeins beina máli mínu að nýju til hæstv. forsætisráðherra. Eftir því sem ég get skilið þingsköp Alþingis er það svo skýrt í 6. gr. að kosning forseta og varaforseta gildi út kjörtímabilið. Á því geta þó orðið breytingar ef meiri hluti þingmanna, 32 þingmenn, biður um nýja kosningu en svo geta orðið breytingar ef einstakir einstaklingar sem gegna þessum embættum segja af sér. Ég hygg að það hafi gerst að minnsta kosti tvívegis á þessu kjörtímabili, bæði með hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, að þær hafi sagt af sér embættum varaforseta. Í slíkum tilvikum liggur auðvitað í eðli máls að ekki þarf að safna undirskriftum til að krefjast nýrrar kosningar.

En það hefur komið fram, hæstv. forsætisráðherra veit af því eins og aðrir sem fylgjast með fjölmiðlum, að einhverjir þingmenn eru að safna undirskriftum undir beiðni um að kosið verði að nýju til forseta Alþingis (Gripið fram í: Í réttarríkinu.) og ég spyr hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) um viðhorf hennar til þeirrar undirskriftasöfnunar.