140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

staða forsætisráðherra.

[10:54]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Nokkuð hefur verið í umræðunni undanfarið, byrjaði um áramótin þar sem hæstv. utanríkisráðherra lét þau orð falla, að kominn væri tími á að skipta út hæstv. forsætisráðherra, formanni Samfylkingarinnar.

Í umræðum um landsdómsmálið ræddu nokkrir hv. þingmenn samstarfsflokks Samfylkingarinnar um stöðu hæstv. forsætisráðherra. Þar sagði meðal annars einn þingmaður að svo virtist sem hæstv. forsætisráðherra væri búin að gleyma hrunábyrgð sinni. Annar þingmaður samstarfsflokksins sagði að það væri sérstakt þegar hæstv. forsætisráðherra væri farin að tjá sig með þeim hætti sem hún gerði þegar hún hefði átt sæti í ríkisfjármálanefnd á sínum tíma. Ríkisfjármálanefnd þessi var einmitt skipuð Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Geir H. Haarde, Árna Mathiesen og svo hæstv. núverandi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Þessi nefnd var á vegum ríkisstjórnarinnar og átti að fylgjast með öllum aðgerðum um ríkisfjármál og samræma. Hún hafði fulla yfirsýn yfir allt sem var að gerast á síðustu dögum og vikum fyrir bankahrun.

Í ljósi þess að svo virðist sem innan bæði Samfylkingarinnar og samstarfsflokksins sem og úti í samfélaginu séu vaxandi raddir um ábyrgð hæstv. forsætisráðherra langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvað henni finnist um þessar vangaveltur og hvort ráðherrann hafi hugleitt stöðu sína í tengslum við þessi mál. Hefur hæstv. forsætisráðherra hugleitt sína persónulegu stöðu sem forsætisráðherra þjóðarinnar eftir hrun í ljósi þess að hún átti sæti í þessari ríkisfjármálanefnd í aðdraganda hrunsins?