140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

staða forsætisráðherra.

[10:56]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst út af inngangi hv. þingmanns þar sem hann vísar í hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson er það þannig að ég hef fullt umboð og fullan stuðning frá landsfundi flokksins sem haldinn var fyrir tveimur, þremur mánuðum. Þar lagði ég upp verkefnalista sem ég er að fylgja eftir og ætla mér að gera til enda þessa kjörtímabils þannig að það er engan bilbug á mér að finna. Ég veit ekki til annars en að ég hafi fullan stuðning míns flokks til að klára þau mál og þó að einhverjar vangaveltur séu hjá Össuri Skarphéðinssyni um einhverja framtíðarleiðtoga flokksins geri ég ekki mikið með það. Hann getur verið með sínar vangaveltur út og suður alveg eins og honum sýnist.

Varðandi veru mína í ríkisfjármálanefnd finnst mér þar gæta mikils misskilnings. (Gripið fram í: Misskilnings?) Ég átti sæti í henni, hv. þingmaður, en ég held að þingmenn eigi að kynna sér eðli og verkefni ríkisfjármálanefndar áður en þeir koma í ræðustól með svona dylgjur eins og þeir gera. Ríkisfjármálanefnd fer fyrst og fremst yfir fjárlög komandi árs, leggur fyrir ramma fyrir ráðuneytin og fer yfir stöðuna á tekju- og gjaldahlið. Ríkissjóður stóð ágætlega á þessum tíma þegar hrunið varð. (Gripið fram í: Ekki …) Efnahagsmálin eru ekki á borði ríkisfjármálanefndar nema að mjög litlu leyti og ekkert að því leyti sem viðkom hruninu.

Síðan ætla ég að biðja hv. þingmann að lesa skýrslu rannsóknarnefndar um minn hlut í þessu og fara yfir hann vegna þess að þar var ekkert, að mati skýrslunnar og höfunda hennar eða rannsóknarnefndar í þinginu, sem gaf tilefni til þess að ég yrði ákærð með einum eða neinum hætti. Þetta eru tilefnislausar dylgjur og ég skil ekki hvað vakir fyrir hv. þingmanni í þessu efni.