140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

staða forsætisráðherra.

[10:59]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hygg að ekki bara ráðherrar heldur þingmenn allir hér inni sem áttu þá sæti hafi hugleitt sína siðferðilegu ábyrgð. (ÁsmD: Í ríkisfjármálanefnd.) Þeir hafa hugleitt sína siðferðilegu ábyrgð. (Gripið fram í.) Hér eru þingmenn inni, þótt þeir séu ekki ráðherrar, sem eiga að veita aðhald, eiga að veita ríkisstjórn aðhald, eiga að fylgjast með því sem er að ske og gera eftir atvikum athugasemdir við það ef þeim býður svo við að horfa. (ÁsmD: Hefurðu hugleitt þetta?) Eru margir hér inni sem gerðu það á sínum tíma? Ég sem hér stend gerði miklar athugasemdir við ýmislegt sem fram fór þegar ég var þingmaður á árunum 2005, 2006 og 2007 og má lesa um það í þingskjölum þar sem ég varaði við ýmsu sem þá var að ske í samfélaginu og efnahagslífinu, m.a. stærð bankanna, hvernig bankarnir væru að kaupa í sjálfum sér og hvernig þeir lánuðu stjórnendum fyrirtækjanna. [Kliður í þingsal.]

Hv. þingmaður hefur engin efni á að spyrja svona spurninga. (Gripið fram í.) Ég hef alveg eins og aðrir hugleitt mína pólitísku ábyrgð (Forseti hringir.) og það eru ekki bara ráðherrar sem eiga að gera það heldur líka þingmenn. Ég geri kröfu til þess að hv. þingmenn geri mun á ríkisfjármálanefnd (Forseti hringir.) og þeim nefndum sem fjölluðu almennt um efnahagsmálin á þessum tíma, fjármálastöðugleikanefndir. Þar á er verulegur munur og það ætti eiginlega að vera lágmark að þingmenn vissu hvernig ríkisfjármálanefndir störfuðu. (Forseti hringir.) Það eru örugglega til fundargerðir um það sem þingmenn ættu þá að fara yfir.