140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

nefnd um samspil lífeyrissjóða og almannatrygginga.

[11:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hæstv. velferðarráðherra Guðbjart Hannesson um örlög og framtíð nefndar sem á að fjalla um samspil lífeyrissjóða og almannatrygginga og yfirleitt um greiðslur úr almannatryggingum og einföldun þeirra greiðslna. Nú hafa fulltrúar Öryrkjabandalagsins sagt sig frá nefndinni en ekki úr henni. Þeir ætla ekki að mæta á fundi heldur vilja fylgjast með störfunum. Það er vegna þess að þeir eru ekki sáttir við að þessi nefnd eigi að starfa án þess að til komi nýtt fjármagn inn í þetta velferðarkerfi.

Búið er að setja fram tillögur og hugmyndir um einföldun á lífeyri til aldraðra. Næsta verkefni var að fjalla um einföldun á lífeyri til öryrkja. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvernig hann lítur á örlög þessarar nefndar og framtíð.

Ég vil spyrja frú forseta um tímann. Hann er alltaf tvær mínútur, mér líkar það svo sem ágætlega en …

(Forseti (ÁRJ): Tímamæling fer fram í borði forseta og þar virkar klukkan … þangað til fyrir augnabliki að aðstoðarmaður stöðvaði hana en hv. þingmaður á eina mínútu eftir.)

Þá vil ég nota þá mínútu til að spyrja um mínar hugmyndir í þessu efni og spyrja ráðherra að því hvort ekki sé fráleitt að líta eingöngu á samspil almannatrygginga og einföldun þess kerfis, hvort ekki þurfi að líta á allt heila velferðarkerfið, og þá er ég að tala um húsaleigubætur, vaxtabætur, barnabætur samkvæmt skattkerfinu, Lánasjóð íslenskra námsmanna — öll þessi kerfi eru að tryggja börn og þau eru að tryggja heimili eða húsnæðiskostnað og eru mjög illa samræmd.

Ég hef barist fyrir því í nefndinni að hún fjallaði um alla þessa þætti saman þannig að við fáum heildstætt kerfi sem eigi ekki bara við um öryrkja og aldraða heldur líka um hinn vinnandi mann, sem oft og tíðum er ekki með sérstaklega há laun.