140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

nefnd um samspil lífeyrissjóða og almannatrygginga.

[11:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er rétt að það er mjög brýnt að einfalda velferðarkerfið. Þess vegna finnst mér það miður að hæstv. ráðherra ætlar eingöngu að skoða almannatryggingakerfið, sem er ekki nema hluti af velferðarkerfinu, en er samt að tryggja til dæmis framfærslu barna og húsnæðiskostnað og á sama tíma og menn geta verið með lán fyrir framfærslu barna hjá lánasjóðnum og lán fyrir húsnæðiskostnaði o.s.frv. þannig að verið er að tryggja þetta á mjög mörgum stöðum.

Ég er sammála hæstv. ráðherra í því að verkefni nefndarinnar var að búa til einfaldari og samræmdari og réttlátari reglur. Það kom mér því mjög á óvart þegar ákveðið var að enginn ætti að lækka — því við svona breytingar hljóta alltaf einhverjir að lækka og aðrir að hækka — og ríkisstjórnin bauðst til að setja 2,3 milljarða í það, á árinu 2013 reyndar.