140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

nefnd um samspil lífeyrissjóða og almannatrygginga.

[11:07]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti Hv. þingmaður fellur í þá gryfju að segja að ég hafi svarað því að ég ætli eingöngu að skoða almannatryggingakerfið. Ég var einmitt að segja öfugt. Það eru hópar í gangi að skoða allt húsnæðiskerfið frá A til Ö. Það eru hópar að vinna að því. Við erum með lyfjafrumvarpið inni, að fara í greiðsluendurskoðunina, það er verið að skoða lánasjóðsmálin í menntamálaráðuneytinu. Við verðum auðvitað að taka þetta lið fyrir lið. Við þurfum að skoða barnatryggingarnar þó það starf hafi ekki farið í gang. Það er verið að tala um að það verði einmitt unnið undir þessum hópi eða í tengslum við hann.

Það sem hefur breyst, og ég kom ekki að í fyrra svarinu, er að í tengslum við kjarasamningana hafa stéttarfélögin óskað eftir því að koma inn í þessa vinnu til að skoða samhengi á milli lífeyrissjóðanna og almannatryggingakerfisins.

Ég tel afar brýnt að við vinnum frekar úr því vegna þess að til framtíðar er hugmyndin sú að almannatryggingakerfið eins og nú standi að opinberum styrkjum eða bótum, lífeyrissjóðsgreiðslum og séreignarsparnaði. (Forseti hringir.) Það er þriggja póla kerfi sem allt þarf að vinna saman til að það virki. Við erum í raunveruleikanum að borga í lífeyrissjóðina í dag til að geta staðið undir okkar eigin lífeyri inn í framtíðina. Þannig hefur kerfið verið hugsað.