140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[11:16]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Forseti. Ég vil byrja á að mótmæla því að þessi skýrsla sé einhver áfellisdómur yfir störfum ríkisstjórnarinnar. Hún felur fyrst og fremst í sér staðreyndir málsins sem hlutlaus stofnun setur fram og hefur verið yfirfarin af hlutlausum aðila, eins og Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum. Þau hafa ekki gert athugasemdir við það sem þar kemur fram. En ég held að það sé ástæða til að rifja upp að ríkisstjórnin hefur gripið til margþættra aðgerða vegna skuldavanda heimilanna. Í fyrra fengu 37 þús. heimili vaxtabætur, 320 þús. kr. að meðaltali. Vaxtaniðurgreiðslurnar fengu 65 þús. heimili, 95 þús. kr. að meðaltali. Komið var til móts við þá sem eru yfirveðsettir með þunga greiðslubyrði og þar skiptir 110%-leiðin mestu, 15 þús. umsóknir um 110%-leiðina hafa borist og samþykktar hafa verið rösklega 10 þús. umsóknir. Það sýnir að rétt var að bjóða upp á þetta úrræði og er rétt að gagnrýnendur hafi það í huga. Frá hruni hafa skuldir heimilanna verið lækkaðar um hartnær 200 milljarða kr. og 50–60 milljörðum til viðbótar varið til vaxtabóta og vaxtaniðurgreiðslna.

Þingmenn hafa í umræðum, t.d. hér í gær, vitnað til talna Hagstofunnar frá því í haust um fjárhagsstöðu heimilanna og talið eins og 60 þús. heimili séu gjaldþrota. Því fer víðs fjarri. Það verður að hafa í huga að könnun Hagstofunnar var gerð á fyrri hluta síðasta árs, tekur til ársins 2010 þegar Ísland var á botni kreppunnar og þá sögðust 16 þús. heimili eiga mjög erfitt með að ná endum saman og 46 þús. í nokkrum erfiðleikum. En síðan þá, og það skiptir öllu máli, hefur mikið verið gert í skuldaaðgerðum fyrir heimilin og þær 50–60 aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til eru farnar að virka vel. Nú sjáum við að skuldir hafa lækkað um 10%, vanskil hafa minnkað, einkaneysla aukist og störfum fjölgað. Fasteignaverð hækkaði um 10% á síðasta ári sem jafngildir því að raunvirðið hafi hækkað um 4–5%. Síðast en ekki síst nefni ég að kaupmáttur launa jókst um 3,7% á síðasta ári og enn meira hjá þeim sem hafa lægstu launin.

Margoft hefur í umræðunni verið vísað til svigrúms bankanna til afskrifta. Ýmsar tölur hafa verið nefndar í því sambandi og ég taldi því mikilvægt að skorið yrði úr um þetta mál í eitt skipti fyrir öll og fól Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að meta það. Niðurstöður Hagfræðistofnunar liggja nú fyrir í skýrslu. Ég spyr: Draga menn hlutleysi Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands í efa, skýrslu sem hefur verið yfirfarin líka af Fjármálaeftirlitinu sem á að hafa aðgang að öllum gögnum bankanna sem og Seðlabankanum?

Í skýrslunni kemur fram það mat að svigrúm varðandi húsnæðislánin sé um 95 milljarðar kr. og Hagfræðistofnun ályktar að fyrirliggjandi tölur um afskriftir bendi til þess að þetta svigrúm bankanna sé uppurið og gott betur. Jafnframt hefur Íbúðalánasjóður fært niður lán án þess að svigrúm sé fyrir hendi og lagði ríkið sjóðnum til um 33 milljarða kr. til þessa verkefnis.

Ég fól Hagfræðistofnun Háskóla Íslands einnig að meta tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna um flata niðurfærslu húsnæðislána og niðurstaðan er að tillögurnar feli í sér viðbótarniðurfærslu sem nemi um 200 milljörðum kr., um 11% af landsframleiðslu. Hagfræðistofnun telur að ríkið muni bera 122 milljarða af þessum 200 milljörðum ef ráðist yrði í þessar aðgerðir vegna kostnaðar hjá Íbúðalánasjóði, lífeyrissjóðirnir 33 milljarða og innlánsstofnanir 45 milljarða kr. Af þessu má sjá að kostnaðurinn verður borinn af skattgreiðendum og lífeyrisþegum ef farið verður að tillögum Hagsmunasamtaka heimilanna. Ég geri kröfu til þess að þeir sem krefjast svo stórtækra aðgerða geri þjóðinni grein fyrir því hvar eigi að taka þessa peninga til að fara í þessar aðgerðir. Ég minni á að þetta er af þeirri stærðargráðu að það samsvarar öllum þeim niðurskurði sem við höfum þurft að fara í gegnum á síðustu þremur árum. Halli ríkissjóðs hefur minnkað um nálægt þetta og það hefur víða kostað blóð, svita og tár að fara í niðurskurð. Ef menn vilja fara í aðgerðir sem kosta sambærilegt, upp á 200 milljarða kr., verða þeir að gera grein fyrir því hvar á að taka þá peninga. (Gripið fram í.)

Skuldir fyrirtækjanna voru gríðarlega háar fyrir hrun, námu þrefaldri landsframleiðslu en endurskipulagning skulda fyrirtækjanna hefur borið árangur og skuldir eru núna um tvöföld landsframleiðsla í staðinn fyrir að vera þreföld. Í heildina nemur niðurfelling skulda fyrirtækja um 900 milljörðum kr. Nú sér fyrr endann á endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja og vonandi lýkur því mikla verkefni um mitt næsta ár.

Ég sé að tími minn er búinn þannig að ég skal fara í lokaorðum mínum hér á eftir (Forseti hringir.) yfir það sem ég tel gerlegt að grípa til varðandi aðgerðir fyrir heimilin.