140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[11:24]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Mér er nokkur vandi á höndum við að ræða þetta mál, a.m.k. ef litið er til heitis umræðunnar, þ.e. skuldastaða heimila og fyrirtækja, því að ræða hv. málshefjanda, hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, snerist að mestu um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Hefði verið nær að beina heiti umræðunnar þangað þannig að við gætum einbeitt okkur að því að ræða hana.

Þessi nýja skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands varð til á ákveðnum forsendum. Eftir að Hagsmunasamtök heimilanna komu með tillögu sína til þingsins og forsætisráðherra var ákveðið í samráði við Hagsmunasamtök heimilanna að ráðast í úttekt á þessum málum. Í samkomulagi við stjórnvöld og Hagsmunasamtök heimilanna var ákveðið að fela Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að gera þá úttekt sem nú liggur fyrir. Báðir aðilar áttu aðild að því máli með einum eða öðrum hætti og það er sú niðurstaða sem nú liggur fyrir. Þess vegna þykir mér undarlegt ef menn gagnrýna í sjálfu sér niðurstöðu skýrslunnar á forsendum þess að þetta sé eitthvert plagg frá stjórnvöldum, þetta sé eitthvert áróðursplagg eða að það sé nánast verið að fylgja fyrirmælum stjórnvalda til að komast að einhverri tiltekinni niðurstöðu. Ég held að það sé langur vegur frá því.

En auðvitað breytir það ekki því að skuldastaða heimila er slæm sem og skuldastaða fyrirtækja. Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal áðan um þá sem bera þyngstu byrðarnar í dag. Það er algjörlega hárrétt og margt til í því sem hann sagði um millistéttina, svokallaða millistéttaraula, sem við kannski flest tilheyrum hér og erfiðast hefur gengið að ná til. Kannski þurfum við að einbeita okkur að því frekar en við höfum gert þar sem okkur hefur tekist býsna vel upp að mörgu leyti. Sá vandi sem hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi er kannski sá sem við ættum að einbeita okkur að í framhaldinu og beina þá umræðunni þangað.