140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

skuldastaða heimila og fyrirtækja.

[11:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ræða hæstv. forsætisráðherra áðan var mikil vonbrigði. Enn og aftur virðist forsætisráðherra ekki vera í nokkrum einustu tengslum við það sem er að gerast úti í samfélaginu eða við fólkið í landinu. Þegar ráðherrann kemur hér upp og heldur því fram að þetta sé ekkert vandamál, að búið sé að gera svo mikið fyrir heimilin í landinu að það þurfi varla að gera nokkuð meira. Að halda því svo fram að þingmenn efist um hlutleysi Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands — við efumst um gæði þeirrar skýrslu sem fjallað var um. Hæstv. ráðherra hefur í meira en aldarfjórðung talað um að afnema þurfi verðtryggingu. Af hverju hefur hæstv. ráðherra þá ekki gert það þegar hún hafði gott færi til þess að gera það? Hvers vegna hefur hæstv. ráðherra ekki afnumið verðtrygginguna?

Ég kannast ekki við það í ræðum ráðherrans frá fyrri tíð að þar hafi verið eitt orð um að evra væri forsenda þess að afnema verðtryggingu, ekki eitt orð. Hæstv. ráðherra hefur manna oftast flutt ræður í þinginu um að afnema þurfi verðtrygginguna og gerir svo ekkert í því þegar hún hefur tækifæri til þess.

Hvar á að taka peninginn? spyr hæstv. ráðherra. Hvernig væri að forsætisráðherra Íslands færi aftur til ársins 2009 og læsi yfir allar þingmannatillögurnar sem komið hafa frá þeim tíma um það hvernig hægt er að leiðrétta lán heimila í landinu almennt? Það væri gott ef ráðherrann gerði það.

Svo vil ég segja eitt. Þessi ríkisstjórn hafði tækifæri til þess að nota svigrúmið sem bankarnir höfðu fyrir heimilin. Hún kaus að láta kröfuhafana hafa þessa fjármuni, ekki heimilin í landinu, ekki fyrirtækin í landinu heldur kröfuhafana. Og þar liggur hundurinn grafinn. Ef ekki er svigrúm í dag til að fara í almenna leiðréttingu er það á ábyrgð ríkisstjórnarinnar vegna þess að hún ákvað að láta kröfuhafa njóta fjármunanna, njóta svigrúmsins.

Frú forseti. Það eru til leiðir eins og þingmenn hafa margoft bent á í þessum ræðustól og í tillögum. Það er ríkisstjórnin sem vill ekki laga lán heimilanna og enn síður lán fyrirtækjanna. Það höfum við margséð.