140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

brottfall ýmissa laga.

382. mál
[11:45]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um brottfall ýmissa laga á sviði fræðslumála.

Í frumvarpinu er lagt til að eftirtalin lög falli brott:

1. Lög um Myndlista- og handíðaskóla Íslands, nr. 38/1965, með síðari breytingum.

2. Lög um Leiklistarskóla Íslands, nr. 37/1975, með síðari breytingum.

3. Lög um landgræðslustörf skólafólks, nr. 58/1974, með síðari breytingum.

4. Lög um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn, nr. 112/1976, með síðari breytingum.

Tilurð þessa frumvarps má rekja til þess að við undirbúning frumvarps til nýrra laga um Stjórnarráð Íslands kom í ljós að í íslenska lagasafninu voru nokkrir lagabálkar sem vörðuðu ráðuneyti mennta- og menningarmála en láðst hafði að fella brott við setningu nýrra laga um sama málefni.

Afdrif þeirra verkefna sem framangreindir lagabálkar fjalla eru í stuttu máli þessi:

Um lög um Myndlista- og handíðaskólann, sem ég nefndi fyrst, er það að segja að við stofnun Listaháskóla Íslands 1. ágúst 1999 varð Myndlista- og handíðaskólinn að sérstakri myndlistar- og hönnunardeild innan skólans.

Í öðru lagi voru það lög um Leiklistarskóla Íslands, sem ég nefndi áðan. Leiklistarmenntun á háskólastigi á Íslandi hófst á vegum hins sama Listaháskóla Íslands og Leiklistarskólinn rann inn í 1. ágúst árið 2000.

Í þriðja lagi eru það lög um landgræðslustörf skólafólks sem sett voru á þjóðhátíðarárinu 1974. Ákvæðum þeirra hefur hins vegar ekki verið framfylgt um langa hríð. Að mati mennta- og menningarmálaráðuneytis samrýmast þau ekki núverandi skólaumhverfi og reglum um vinnu barna og ungmenna.

Í fjórða lagi eru það lög um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn en þeim var ætlað að samræma ákvæði laga um dagvistarheimili en hefur láðst að fella þau brott við samþykkt heildarlaga um leikskóla.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.