140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

menningarminjar.

316. mál
[11:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um menningarminjar. Þetta frumvarp var áður lagt fyrir á 139. löggjafarþingi í samhengi við þrjú önnur frumvörp sem þá voru afgreidd. Þau voru frumvarp til laga um Þjóðminjasafn Íslands, frumvarp til nýrra safnalaga og frumvarp til laga um skil menningarverðmæta til annarra landa. Í ljósi fjölmargra ábendinga sem fram komu um efni þessa frumvarps í meðförum Alþingis þótti hins vegar rétt að skoða það nánar og var því afgreiðslu þess frestað.

Eins og fram kom við umræðu um þessi frumvörp á síðasta þingi voru árið 2001 gerðar gagngerar breytingar á lögum um fornleifar og minjavörslu með samþykkt nýrra þjóðminjalaga og þrennra annarra laga á því sviði. Sett voru sérstök lög um ýmsa þætti sem áður var fjallað um sameiginlega í eldri þjóðminjalögum, þ.e. lögum um húsafriðun frá árinu 2001, lögum um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa, sem eru líka frá árinu 2001, safnalögum frá árinu 2001 og nýjum þjóðminjalögum frá sama ári. Meðal nýmæla í þessum gildandi lögum var að stjórnsýsluþáttur fornleifaverndar var skilinn frá Þjóðminjasafni Íslands og sett á laggirnar ný stofnun, Fornleifavernd ríkisins. Á sama tíma var húsafriðunarnefnd einnig gerð að formlegri stjórnsýslustofnun með lögum nr. 104/2001, sem nefnd voru áður.

Verndun menningararfs þjóðarinnar heyrir því undir ýmsar stofnanir á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis sem starfa við ólík skilyrði. Reynslan af framkvæmd þeirra laga sem sett voru 2001 hefur leitt í ljós að stjórnsýsla, ábyrgð og verkaskipting þarf að vera skýrari og enn fremur að samræmi skortir í skipun og hlutverk nefnda og ráða sem undir lögin falla sem og í fyrirkomulagi sjóða og við meðferð mála. Einnig hefur komið í ljós misræmi í notkun hugtaka jafnframt því sem mörk milli minjaflokka hafa ekki verið skilgreind nægjanlega, til að mynda milli fornleifa annars vegar og mannvirkja hins vegar.

Megintilgangur þeirrar lagasetningar sem hér um ræðir er að auka skilvirkni minjavörslu með einfaldari stjórnsýslu, skýrari hugtökum og skýrara verklagi við afgreiðslu mála. Með því er leitast við að styrkja stjórnsýslu á sviði menningarminja en lagt til að þeir stjórnsýsluþættir minjavörslu sem undir mennta- og menningarmálaráðuneytið heyra verði sameinaðir í eina stjórnsýslustofnun, Minjastofnun Íslands. Slík sameining stuðlar að hagkvæmni í rekstri og er liður í endurskoðun og uppbyggingu þeirra menningarstofnana sem heyra undir ráðuneytið.

Ráðgert er að þessi stofnun taki annars vegar við því hlutverki sem Fornleifavernd ríkisins hefur á hendi og hins vegar hlutverki Húsafriðunarnefndar, en kannski átta sig ekki allir á því að Húsafriðunarnefnd ríkisins er í senn nefnd og stjórnsýslustofnun. Gert er ráð fyrir því að þessar tvær stofnanir renni saman í eina enda sinna þær nátengdum verkefnum. Þannig er til að mynda umfjöllun og umsagnir vegna skipulagsáætlana og umhverfismats veigamiklir þættir í starfsemi beggja stofnana svo og skráning og mat á varðveislugildi menningarminja, eftirlit með slíkum minjum og framkvæmdir við þær. Enn fremur er gert ráð fyrir að hin nýja sameinaða stofnun sinni ákveðnum stjórnsýsluþætti hvað varðar skil á menningarverðmætum til annarra landa eins og kemur fram í lögum nr. 57/2011.

Samkvæmt þessu frumvarpi til laga um menningarminjar mun Minjastofnun Íslands sjá um umsýslu þeirra tveggja sjóða sem tengjast varðveislu menningarminja og verður starfsemi þeirra samhæfð en í núverandi skipulagi er nokkuð ólíkt hvernig umsýslu sjóðanna er háttað.

Auk ákvæða um sameiningu eru helstu nýmæli samkvæmt frumvarpi til laga eftirfarandi:

1. Þjóðminjasafni Íslands og Minjastofnun Íslands er gert að halda skrár yfir þjóðminjar samkvæmt ítarlegri skilgreiningu þeirra fyrir íslenska menningarsögu, annars vegar yfir lausamuni og hins vegar jarðfastar minjar.

2. Hugtakið þjóðarverðmæti er nú notað í samræmi við hugtakanotkun í tilskipun Evrópusambandsins nr. 93/7/EBE um að skila menningarminjum sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þessi hugtök séu skilgreind á sambærilegan hátt milli landa því að þetta snýr að samskiptum landa og eitt af því sem við höfum lagt verulega vinnu í er að ná þessari samræmdu hugtakanotkun.

3. Skerpt er á skilgreiningu hugtaksins fornleifar og tekin af öll tvímæli um mörk milli fornleifa og heilla mannvirkja. Einnig er horfið frá því að miða aldursmark friðaðra fornleifa við 100 ár og í staðinn miðað við fast ártal, sem er árið 1900.

4. Hugtakið fornleifarannsókn er skilgreint með hliðsjón af þeirri þróun sem orðið hefur í tæknilegum aðferðum og með hliðsjón af áherslum alþjóðastofnana á borð við UNESCO á varðveislu menningarminja. Hlutverk Minjastofnunar Íslands gagnvart rannsóknum er skýrt, stofnunin á að hafa eftirlit með rannsóknum, veita leyfi þar sem þess er krafist, til að mynda þegar þær valda jarðraski samkvæmt lögum og hafa eftirlit með því að gögnum sé skilað.

5. Hugtakið skyndirannsókn er skilgreint og sett ákvæði um framkvæmd og fjármögnun slíkra rannsókna sem ég tel að skipti mjög miklu máli til að skerpa á lagaramma fornleifarannsókna.

6. Í kaflanum um verndun húsa og annarra mannvirkja er hugtakið mannvirki skilgreint skýrar en áður, aldursmark er í raun og veru sett sjálfkrafa á friðun húsa, sem væri þá 100 ára aldursmark sem er ólíkt því sem fornleifar eru miðaðar við, og fyrir því eru mjög skýr fagleg rök. Ef við lítum annars vegar á húsasögu Íslands og hins vegar á sögu einstakra gripa miðum við gripina við þann tíma þegar til að mynda fjöldaframleiðsla hófst sem hafði áhrif á það hvernig framleiðslu var háttað, en að tillögu húsafriðunarnefndar er hins vegar talið eðlilegt að miða hús við 100 ára aldursmark út frá ýmsum staðreyndum í byggingarsögu Íslands. Gerður er greinarmunur á sjálfkrafa friðun mannvirkja vegna aldurs og svo friðlýsingu sem er sérstök ákvörðun ráðherra.

7. Friðlýsing fornleifa er færð til ráðherra í stað þess að vera á valdi stofnunar og er það til samræmis við ákvæði í lögum um friðlýsingar mannvirkja og náttúruminja. Enn fremur er skerpt á því að friðlýsing sé hugsuð fyrir úrvalsflokk minja sem hafi sérstaka þýðingu fyrir þjóðina.

8. Sett er ákvæði sem heimilar skyndifriðun, t.d. yngri minja sem hafa sérstakt menningarsögulegt gildi.

9. Hv. þingmenn hafa sýnt gríðarlegan áhuga á málfarsefnum hér um langt skeið og því er lagt til að heiti húsafriðunarnefndar verði haldið óbreyttu þó að ljóst sé að nefndinni sé einnig ætlað að fjalla um málefni annarra mannvirkja. Rætt var um hvort nefndin ætti að heita mannvirkjafriðunarnefnd því að hún fjallar einnig um skip, báta, girðingar og hvað eina sem við getum kallað mannvirki, fráveitur, vegi og svo mætti lengi telja. Það er mín tillaga að við höldum nafni nefndarinnar sem hefur mjög skýra merkingu í huga almennings.

10. Lagt er til að fornminjanefnd verði öflug fagnefnd með víðtækt hlutverk en ekki áfrýjunarnefnd eins og hlutverk fornleifanefndar er í gildandi lögum.

11. Gert er ráð fyrir að minjaverðir, sem falla undir Minjastofnun Íslands, sinni víðtækara hlutverki en þeir gera samkvæmt gildandi þjóðminjalögum.

12. Sett eru skýr ákvæði um tímamörk tilkynninga um fund fornleifa, um rask á þeim og viðbrögð Minjastofnunar, en það er eitt af því sem talsverðar ábendingar bárust um að væri mjög mikilvægt að væri skýrt í frumvarpinu.

Þetta lagafrumvarp sem ég mæli fyrir á sér langan aðdraganda. Það var undirbúið í samhengi við þau þrjú frumvörp sem ég nefndi hér í upphafi og voru afgreidd sem lög frá Alþingi í fyrra. Þetta frumvarp er hins vegar í raun grundvöllur hina þriggja. Þau lög munu taka gildi 1. janúar 2013 og því er lagt til að verði þetta frumvarp að lögum taki þau gildi á þeim tíma til að fullt samræmi sé á milli þeirra.

Þáverandi menntamálaráðherra skipaði starfshóp árið 2005 til að endurskoða í heild gildandi löggjöf á þessu sviði í ljósi reynslunnar af þeim lögum sem sett voru 2001. Hópurinn skilaði tillögum sínum til ráðherra 30. apríl 2007 en frá þeim tíma hafa frumvarpsdrög verið til frekari skoðunar og vinnslu hjá ráðuneytinu. Þau voru kynnt opinberlega á vegum ráðuneytisins og umsagna leitað um þau haustið 2008. Síðar hefur verið leitað til ýmissa sérfróðra aðila og hagsmunaaðila um ýmis efnisatriði og það ferli hefur verið í gangi allt frá því að ég tók við störfum sem ráðherra snemma árs 2009. Síðasta kynning á frumvarpinu fór fram haustið 2010 þegar ýmsum hagsmunaaðilum var boðið til fundar og farið yfir frumvarpsdrögin. Ég tel að vinnuferlið hafi verið nokkuð gegnsætt og þeir sem starfa í þessum geira hafi verið upplýstir um framgang mála.

Endanleg útgáfa frumvarpsins sem hér liggur fyrir endurspeglar að sjálfsögðu ýmsar þær ábendingar og athugasemdir sem hafa komið fram í kynningarferlinu sem og það sem unnið var að á þingi, en eins og ég sagði í upphafi mælti ég fyrir frumvarpinu á Alþingi samhliða áðurnefndum frumvörpum 7. apríl 2011. Því var þá vísað til þáverandi hv. menntamálanefndar sem sendi út umsagnarbeiðnir en nefndinni bárust á þriðja tug umsagna um efni frumvarpsins með fjölda ábendinga og fékk að auki nokkurn fjölda aðila á fund sinn til að fjalla um frumvarpið.

Við undirbúning frumvarpsins hefur verið tekið tillit til ýmissa þeirra ábendinga sem komu fram í þeim umsögnum sem bárust menntamálanefnd Alþingis vorið 2011 og hef ég nefnt nokkrar þeirra. Ég vil líka nefna að sett hefur verið í frumvarpið sérstakt ákvæði um verndun báta og skipa sem eru mikilvægur hluti af menningararfi þjóðarinnar sem nauðsynlegt er að varðveita en þau eru langflest frá 20. öld og falla því utan hinnar almennu aldursskilgreiningar á forngripum og var því ákveðið að breyta og setja aldursmark skipa og báta sem teljast til forngripa við ártalið 1950.

Ég hef nú stiklað á stóru um helstu atriði og breytingar sem orðið hafa á frumvarpinu. Ég vonast til þess að ný lög um menningarminjar muni taka gildi 1. janúar 2013 á sama tíma og önnur þau lög sem ég hef nefnt munu taka gildi og vænti þess að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og hef ekki fleiri orð um það á þessu stigi.