140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

umhverfisábyrgð.

372. mál
[14:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um umhverfisábyrgð. Ég er mjög ánægður með þetta frumvarp, ég verð að segja það. Ég tel að þeir sem mengi eigi að bera ábyrgð á því. Ég held að til langtíma muni þetta valda því að fyrirtæki gæti sín betur með starfsemi sína, að hún sé sjálfbær og valdi ekki mengun til langframa. Hins vegar óttast ég að sú stefna ein og sér sem Evrópusambandið er að fara geti valdið skammtímaáhrifum sem eru óafturkræf vegna þess að þegar til dæmis er búið að byggja upp og taka í notkun kolanámur í Kína — þar er víst opnað eitt álver á viku skilst mér, vöxturinn er gífurlegur — er þeim ekki lokað strax. Þar er mengunin af framleiðslu á einu kílói af áli margfalt meiri en á Íslandi, vegna þess að rafmagnið er framleitt með brennslu kola eða gass eða einhverju slíku. Í Sádi-Arabíu er verið að reisa stór álver, margfalt stærri en hér, þar sem allt er framleitt með brennslu gass. Og þegar búið er að byggja þetta upp verður það ekki rifið niður í hvelli. Þessar verksmiðjur munu standa í 20, 30 ár, brennandi kolum og gasi og olíu og valdandi gífurlegri mengun með koldíoxíðlosun og losun fleiri lofttegunda, til dæmis brennisteinsmengun, sérstaklega úr kolum. Brennisteinninn kemur hingað, ég vil bæta því við svona sem aukasetningu. Þessar ráðstafanir eru ekki teknar til baka, ekki á 10, 20 árum. Við erum því að tala um skammtímaáhrif sem geta leitt og munu leiða til langtímaáhrifa.

Ég vildi bara koma með þetta inn í umræðuna, vegna þess að oft er það þannig að þegar maður reynir að gera eitthvað gott gerir maður eitthvað slæmt. Það virðist oft á tíðum vera lögmálið að þegar menn reyna að rugla einhverju jafnvægi sem er í gildi í efnahagslífinu eða annars staðar í þjóðfélaginu, þá bregst ástandið við með því að leiðrétta það annars staðar. Þannig að þegar við lögum ástandið í Evrópu, versnar það í Kína og Indlandi. Sá skaði getur verið miklu meiri vegna þess að þar telja menn sig kannski hafa meiri þörf fyrir að afla matar, launa og atvinnu og annars slíks en að draga úr mengun.

Þannig að ég vildi koma inn á þetta. Ég er hlynntur þessu frumvarpi en ég vil að menn gangi dálítið hægt um gleðinnar dyr og séu ekki svo uppfullir af einhverri umhverfishugsjón að þeir verði blindir á afleiðingar gerða sinna annars staðar. Ég vil ekki að menn komi hér upp einhverju heilögu ríki umhverfisverndar sem veldur náttúrlega atvinnuleysi og brottflutningi og öðru slíku. Ef það er gert eitt og sér hérna skaðar það væntanlega atvinnulífið, að minnsta kosti til skamms tíma. Reyndar hafa menn sagt að margar af þeim umhverfisaðgerðum sem fyrirtæki fara út í borga sig til mjög langs tíma en bara til langs tíma. Skammtímaáhrifin geta verið þau að við búum hér í eylandi mikillar umhverfisverndar og umhverfisábyrgðar á meðan allur heimurinn utan Evrópu, vegna þess hve Evrópa gengur langt í þessu, fær í auknum mæli samkeppnisforskot og framleiðir enn meira af fatnaði á okkur, bíla, útvörp og sjónvörp og annað, ég ætla ekki að nefna það allt, sem allt kostar mengun. Bara framleiðslan á jeppa hæstv. ráðherra kostar heilmikla mengun. Við erum alltaf að menga gegnum neyslu okkar.

Þannig að ef sú framleiðsla flyst til landa þar sem ekki ríkir þessi hugsjón og stefna getur það í heild sinni skaðað meira en við bætum umhverfið hér. Þetta vil ég að menn hafi í huga. Það er ekki þar með sagt að ég sé á móti þessu, ég er það alls ekki. Ég vil bara að menn reyni að koma þessu sem víðast á.