140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

varnir gegn mengun hafs og stranda.

375. mál
[14:10]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda. Frumvarpið felur fyrst og fremst í sér skipulagslega hagræðingu, miklu frekar en efnislega breytingu. Markmiðið með frumvarpinu er að styrkja framkvæmd mála vegna bráðamengunar og að tryggja að brugðist sé við bráðamengun á viðeigandi hátt.

Lögin um varnir gegn mengun hafs og stranda voru sett árið 2004 og í þeim var gert ráð fyrir að svæðisráð mundu starfa á hverju svæði. Þau áttu fyrst og fremst að hafa það hlutverk að hafa umsjón með mengunarvarnabúnaði sem er í eigu hafnanna, reka þennan búnað og halda honum við, sem og annast fræðslu starfsmanna hafna og viðbúnað við bráðamengun, sjá um æfingu og þjálfun í viðbrögðum og vera Umhverfisstofnun til ráðgjafar um aðgerðir vegna bráðamengunar samkvæmt lögum. Þetta kerfi hefur ekki gengið eftir sem skyldi. Að frumkvæði Hafnasambands Íslands hefur verið unnið að endurskoðun á skipulagi viðbragða vegna bráðamengunaróhappa innan hafnarsvæða. Í framhaldi af fundi umhverfisráðuneytisins með fulltrúum Hafnasambands Íslands og Umhverfisstofnunar þar sem þessi mál voru til umræðu fól ráðuneytið Umhverfisstofnun að stýra undirbúningsvinnu vegna framkominna tillagna hafnasambandsins um breytta skipan mála um aðgerðir og viðbrögð í höfnum vegna bráðamengunar. Niðurstaða samráðs Umhverfisstofnunar og fulltrúa hafnasambandsins var að styrkja bæri framkvæmdina og gera hana markvissari með því að leggja niður áður rædd kerfi svæðisráða og skilgreina nánar ábyrgð og hlutverk einstakra hafna og hafnarstjóra.

Því er lagt til í frumvarpinu að einungis starfi svokallað mengunarvarnaráð hafna og að núverandi svæðisráð verði lögð niður. Ástæðan fyrir því að lagt er til að kerfi svæðisráða verði aflagt er að það þykir veikt í framkvæmd og í ákveðnum tilfellum hefur skort á að haldnar séu nauðsynlegar æfingar, búnaður sé yfirfarinn og endurnýjaður. Þetta fyrirkomulag er talið hafa hamlað notkun búnaðar frekar en styrkt nauðsynlega notkun hans.

Nú eru svæðisráðin fimm og sitja þrír til fimm menn í hverju svæðisráði. Þá er í lögunum í dag líka gert ráð fyrir mengunarvarnaráði sem skipað er formönnum svæðisráða og fulltrúa Umhverfisstofnunar sem er formaður þess. Þannig er ljóst að kostnaður sveitarfélaga af mengunarvarnaráði hafna eins og frumvarpið gerir ráð fyrir verður lægri en kostnaður þeirra vegna svæðisráða samkvæmt gildandi lögum. Einnig má gera ráð fyrir að vinnubrögð og viðbrögð við óhöppum verði markvissari þar sem Umhverfisstofnun getur stuðlað að samræmingu milli hafna í samráði við mengunarvarnaráð hafna.

Þannig er með frumvarpinu betur tryggt að viðbrögð við óhöppum verði markvissari þar sem viðbragðsáætlanir skulu gerðar fyrir hverja höfn sem Umhverfisstofnun skal samræma og samþykkja. Samkvæmt gildandi lögum skal Umhverfisstofnun annast samræmingu milli svæða og ber ríkissjóður kostnað af þeirri samræmingu. Gera má ráð fyrir að með tilkomu virkara mengunarvarnaráðs muni sá kostnaður lækka og vega upp kostnað ríkissjóðs af setu fulltrúa Umhverfisstofnunar í ráðinu. Það er mat fjármálaráðuneytisins að verði frumvarpið óbreytt að lögum hafi það ekki áhrif á kostnað ríkissjóðs.

Í frumvarpinu er lagt til að hafnarsvæði verði skilgreint sem umráðasvæði á sjó og landi sem hafnaryfirvöld annast og skilgreint er í hafnalögum og hafnarreglugerðum og sá hluti strandar verði skilgreindur sem hafnarsvæði samkvæmt aðalskipulagi á hverjum stað. Þessi breyting á að afmarka betur það svæði þar sem hafnarstjórar bera ábyrgð á viðbrögðum við bráðamengun, þ.e. mengun á sjó en ekki mengun á landi utan hafnarsvæðis sem tilgreint er á aðalskipulagi. Útlínur ábyrgðar eru sem sagt skýrari.

Gerð er tillaga um það í frumvarpinu að settar verði ítarlegri heimildir í reglugerð hvað varðar flokkun hafna, tiltækan mengunarvarnabúnað, rekstur hans og notkun. Þá eru lagðar til breytingar til samræmis við breytt viðhorf og þróun mála undanfarin ár, svo sem varðandi upplýsingagjöf og samvinnu eftirlitsaðila, stjórn á vettvangi og viðbragðsáætlanir. Hafa skal samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um setningu reglugerðar. Samhliða tillögum að lagabreytingum hefur verið unnið að drögum að endurnýjun á reglugerð um viðbrögð við bráðamengun sem stefnt er að því að setja verði þetta frumvarp að lögum. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um lágmarksmengunarvarnabúnað sem skal vera tiltækur í hverri höfn og það verði skylda hverrar hafnar að eiga slíkan búnað og sjá til þess að honum sé viðhaldið og hann sé tilbúinn til notkunar alltaf þegar á reynir.

Umhverfisráðuneytið hefur, og það er mikilvægt að gera grein fyrir því hér, haft samráð nú þegar við Hafnasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisstofnun við gerð frumvarpsins og upplýst fulltrúa innanríkisráðuneytisins um málið sem ekki gerði athugasemdir við það.

Virðulegur forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.