140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

samskipti ráðherra við samninganefnd ESB.

[15:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að bjóða hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, efnahags- og viðskipta- og verðandi iðnaðarráðherra sem enn situr í stóli hæstv. fjármálaráðherra velkominn til Íslands eftir frægðarför til Brussel. Jafnframt velti ég fyrir mér hvaða móttökur hæstv. ráðherra hafi fengið þar í borg. Við sjáum að minnsta kosti núna hvers vegna heimsókn hv. þm. Jóns Bjarnasonar, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, til Brussel var afþökkuð. Menn hafa væntanlega fengið að vita af því að von væri á öðrum ráðherra í hans stað sem þægilegra væri að ræða við.

Jafnframt hafa nokkrir liðsmenn Samfylkingarinnar lýst því í fjölmiðlum að þrátt fyrir að Samfylkingin hafi þurft að gefa töluvert eftir í þessu stjórnarsamstarfi geti menn að minnsta kosti glaðst yfir því að stóra hindrunin í viðræðum við Evrópusambandið, hv. þm. Jón Bjarnason, væri nú úr vegi. Þá liggur beinast við að spyrja núverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: Á hvaða hátt mun ráðherrann liðka til eða að minnsta kosti ekki þvælast fyrir í viðræðum við Evrópusambandið á sama hátt og samfylkingarmenn töldu að Jón Bjarnason hefði gert? Á hvaða hátt verður þægilegra fyrir Evrópusambandið að eiga við hæstv. ráðherra Steingrím J. Sigfússon en hv. núverandi þm. Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra?

Það er ljóst að samskiptin við Evrópusambandið fóru aftur á fullan skrið og hæstv. ráðherra var tekið með kostum og kynjum, en hver er munurinn á stefnunni sem núverandi hæstv. ráðherra rekur og fyrirrennari hans?