140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

samskipti ráðherra við samninganefnd ESB.

[15:04]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Því er fljótsvarað, frú forseti: Hann er enginn. Það best ég veit erum við sammála í grundvallaratriðum um afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu, við hv. þm. Jón Bjarnason, og höfum lengi verið. Varðandi þá heimsókn til Brussel sem ég fór í er rétt að taka fram að hún hafði verið undirbúin af forvera mínum. Það er misskilningur sem fram kom í máli fyrirspyrjanda að ráðherraskiptin sem urðu um áramótin hafi haft nokkur áhrif þar á, þ.e. sú tímasetning fundanna sem varð ofan á lá þegar fyrir og hafði verið gengið frá í tíð forvera míns, að í staðinn fyrir að fara fyrir jól yrði fundurinn í janúarmánuði.

Það var þegar búið að ákveða og tímasetja tvo af fjórum eða fimm fundum sem ég átti í Brussel, þ.e. með stækkunarstjóranum og með þeim framkvæmdastjóra sem fer með landbúnaðarmál. Reyndar bættust svo við fundir með þeim framkvæmdastjóra sem fer með sjávarútvegsmál, Damanaki, kannski ekki síst af ákveðnu tilefni sem ég hygg að hv. þingmenn þekki. Það standa yfir nokkrar deilur um skiptingu makrílkvóta og það var nokkur áhugi á að ræða það mál á þeim fundi og reyndar fleirum.

Að öðru leyti hyggst ég standa þannig að málum í þessum efnum, eins og einboðið er, að standa fast á hagsmunum okkar Íslendinga og fara þar eftir leiðsögn meirihlutaálits utanríkismálanefndar Alþingis. Í öðru lagi hef ég áhuga á að reyna að fá sem fyrst í gang eiginlegar samningaviðræður um þessa stóru grundvallarhagsmuni okkar þannig að þar geti farið að reyna á í eiginlegum viðræðum og við komumst af því undirbúningsstigi sem hefur verið í gangi í þeim efnum. Það hefur að sjálfsögðu ekkert með það að gera að annað standi til en að standa fast á grundvallarhagsmunum Íslands, en á það reynir ekki fyrr en menn komast í eiginlegar samningaviðræður þannig að menn fái eitthvað (Forseti hringir.) upp á borðið í þeim efnum.