140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

samskipti ráðherra við samninganefnd ESB.

[15:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég efast ekkert um að menn hafi vitað dagsetningu þessara funda með nokkrum fyrirvara, enda virðist hafa legið fyrir með nokkrum fyrirvara hvenær hv. þm. Jón Bjarnasyni yrði farinn úr embætti ráðherra og nýr kominn í staðinn.

Ég velti fyrir mér þeim grundvallaratriðum sem fyrrverandi ráðherra taldi sig þurfa að standa vörð um og oft hafa mætt töluverðum mótbyr í þeirri varðstöðu, til að mynda varðandi innflutning á hráu kjöti. Er hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sammála fyrirrennara sínum hvað það varðar? Eða um styrki til Matíss eða varnarlínur Bændasamtakanna sem svo eru kallaðar, til að mynda varðandi tollvernd, er hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sammála fyrirrennara sínum í því? Er afstaða fyrrverandi og núverandi ráðherra jafnframt sú sama í samningaviðræðum um makríl?