140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

einkavæðing banka og fjármálafyrirtækja.

[15:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Nú hefur verið upplýst í fjölmiðlum að nokkrir hv. þingmenn Samfylkingarinnar ætla að fara fram með þingmál um rannsókn á atburðum sem urðu fyrir tíu árum við einkavæðingu þriggja banka. Fagna ég því og hvet menn til að skoða til dæmis greinar Björns Jóns Bragasonar um það efni á Pressunni, ritgerð úr tímaritinu Sögu og líka hvaða áhrif það hafði að hætta við að fara í dreifða eignaraðild. Það er hið besta mál.

Hins vegar bliknar einkavæðing bankanna 2002 í samanburði við aðgerðir núverandi ríkisstjórnar í þágu fjármálafyrirtækja. Munurinn er sá að í einkavæðingunni 2002 var ferlið gallað og ónógt eftirlit en nú er ekkert ferli og ekkert eftirlit. Bara svo menn setji þessa hluti í samhengi var núvirt söluverð um 40 milljarðar á þessum tíma en eigið fé bankanna er núna 487 milljarðar. Bara lánið til VBS og Sögu er hærri upphæð en söluverðið þegar Landsbankinn og Búnaðarbankinn voru einkavæddir. Tapið á SpKef virðist vera um 30 milljarðar sem er nærri jafnmikið og allt söluverðið á Landsbankanum og Búnaðarbankanum.

Virðulegur forseti. Nú erum við búin að reyna hvað eftir annað að fá einhverjar upplýsingar um þessa hluti. Hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra gerði allt, eins og hæstv. forsætisráðherra, sem hann gat til að halda þessum upplýsingum frá almenningi og þinginu, en nú er kominn nýr hæstv. fjármálaráðherra.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hann muni ekki beita sér fyrir því að þær upplýsingar sem við erum búin að biðja um, sem eiga að vera sjálfsagðar, t.d. hluthafasamkomulag og fylgigögn út af þessari risaeinkavæðingu, komi upp á borðið þannig við þurfum ekki að fara í sérstaka rannsókn út af þessum málum.