140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

stuðningur við afreksfólk í íþróttum.

[15:20]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég get ekki annað sagt en að mér finnst mikilvægt að við ræðum það fyrir fjárlagagerð næsta árs hvernig við ætlum að fylgja íþróttastefnunni eftir. Ég tek það líka fram að öllum er ljóst að hart er í búi hjá ríkissjóði, ef svo má segja, þannig að eðlilegt er að við horfum á það með þeim augum en við verðum líka að setja þetta í alþjóðlegt samhengi. Ef við berum okkur saman við til að mynda aðrar Norðurlandaþjóðir hlutfallslega má sjá að ríkið getur staðið sig betur í þessum málum þegar kemur að því að standa að þátttöku okkar í alþjóðlegum keppnum. Ég held að við verðum að horfast í augu við það.