140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

ríkisfjármögnun Bændasamtakanna.

[15:21]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Mig langar að eiga orðastað við nýjan hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um grein sem Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor ritaði í Fréttablaðið nýverið, á föstudag að ég held, en þar fjallar hann um ríkisfjármögnun Bændasamtaka Íslands. Ég hnaut um nokkrar setningar í ágætri grein Þórólfs. Prófessorinn talar meðal annars um að reikningarnir frá Bændasamtökunum beri ekki með sér að virtur sé sá skýri aðskilnaður ríkissjóðstekna og ríkissjóðsverkefna á einn veg, ráðgjafarþjónustu á annan veg og almennrar félagsstarfsemi Bændasamtakanna á þriðja veg sem áskilinn er í samningi og samþykktum.

Hér er um 350 milljónir að tefla frá ríkinu til Bændasamtakanna. Sá sem hér stendur hyggur að önnur samtök njóti ekki álíka fyrirgreiðslna, en vakin er athygli á því sérstaklega að ráðgjafarþjónusta Bændasamtakanna virðist niðurgreidd um ríflega 100 millj. kr. Ég vitna hér í greinina orðrétt, með leyfi forseta:

„Hluti þeirrar ráðgjafar sem samtökin veita er hefðbundin rekstrarráðgjöf sem aðrir rekstraraðilar en bændur þurfa að kaupa fullu verði af endurskoðunarstofum eða öðrum sérhæfðum aðilum. Önnur fyrirtæki en þau sem rekin eru af bændum þurfa að greiða forritun og tölvuvinnslu fullu verði.“

Síðan segir orðrétt:

„Reyndar má spyrja hvort slík ráðstöfun stangist ekki á við ákvæði samkeppnislaga.“

Frú forseti. Ég hlýt að spyrja nýjan hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að því hvort Bændasamtökin lúti öðrum lögmálum en önnur hagsmunasamtök hér á landi þegar kemur að fjármunum úr ríkissjóði. Er skýr greinarmunur gerður á milli samkeppnisrekstrar sem fjöldi fyrirtækja sinnir á almennum markaði og þeirrar opinberu ráðgjafar sem Bændasamtökin sinna? Er þetta niðurgreitt til einnar atvinnugreinar en ekki til annarra atvinnugreina, svo sem iðnaðar eða sjávarútvegs?

Almennt segir hagfræðiprófessorinn: „Megnið af umsvifum (Forseti hringir.) Bændasamtakanna er í raun umsýsla með skattfé. Samtökin þurfa þó ekki að hlíta þeim ströngu reglum um réttmætt tilefni útgjalda sem ríkisstofnanir þurfa að gera.“ Er það svo í raun?