140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

nýtt frumvarp um Ríkisútvarpið.

[15:28]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við hæstv. menntamálaráðherra vorum á mjög ánægjulegum aðalfundi Ríkisútvarpsins ohf. í morgun. Þar kom fram að þrátt fyrir mjög mikla hagræðingu og sparnað á síðustu árum í rekstri RÚV standi sú stofnun gríðarlega traustum fótum. Það kom fram að í könnun MMR í lok síðasta árs hafi traust til RÚV verið 60%. Einungis lögreglan, með 80%, og Háskóli Íslands, með 70%, nutu meira trausts og fréttastofa RÚV nýtur mests trausts allra fréttamiðla á landinu, 72%. Það kom líka fram að það er meira áhorf á RÚV en á sambærilegar stöðvar á Norðurlöndunum þannig að RÚV stendur gríðarlega traustum fótum.

Því kom það verulega á óvart að hæstv. menntamálaráðherra kom því á framfæri í morgun að það stæði til að leggja fram nýtt frumvarp um RÚV og það verður sýnt líklega í næstu viku. Í DV segir að Vinstri grænir vilji breyta lögum um RÚV og vilji meira eftirlit með RÚV, eins og það heitir. Í þeim miðli er kvartað undan því að hæstv. menntamálaráðherra geti ekki beitt neinu eigandavaldi til að hafa áhrif á starfsemi RÚV.

Af þessu tilefni vara ég alveg sérstaklega við því ef við hér á Íslandi hefjum núna átök enn á ný um RÚV. Er ekki tími til kominn að þessi stofnun fái frið til að sinna því góða starfi sem hún hefur verið að sinna upp á síðkastið? Ég vil líka segja að ef löggjöf á Norðurlöndunum er skoðuð er ekki verið að auka pólitísk afskipti af fjölmiðlum þar. Þar er ákveðin fjarlægð á milli ríkisins og ríkisfjölmiðils. Ef við ætlum núna að fara að taka upp þetta gamla úrelta Ísland, gamla útvarpsráðið sem var með puttana í fréttaflutningi o.s.frv., segi ég nei takk. Ég vara hæstv. ráðherra eindregið við því að fara þá leið að fara sérstaklega (Forseti hringir.) að auka eftirlit með RÚV meira en nú er en nú hafa til dæmis umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun eftirlit með RÚV.