140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

nýtt frumvarp um Ríkisútvarpið.

[15:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég sá þessa frétt í Dagblaðinu og sá líka mynd af mér með henni en hins vegar áttaði ég mig alls ekki af innihaldi greinarinnar á því nákvæmlega hvernig þetta eftirlit ætti að fara fram en myndin af mér sem birtist með var hins vegar mjög ógnvekjandi.

Hvað varðar þetta lagafrumvarp, sem verður kynnt hér vonandi í næstu viku, snýst það meðal annars um að efla sjálfstæði Ríkisútvarpsins. Þá vitna ég í það sem kom fram hjá mér á aðalfundinum í morgun, að tekjum Ríkisútvarpsins sem með lögum 2007 var áætlað að væru markaðar frá útvarpsgjaldi var breytt haustið 2008, að ætlunin er að leggja það til hér, a.m.k. til umfjöllunar þingsins, að þetta verði á ný markaður tekjustofn sem geri það þá að verkum að Ríkisútvarpið ohf. verði ekki á fjárlögum eins og er núna í raun. Þetta er eitt af því sem hefur verið gagnrýnt, m.a. af forsvarsmönnum Ríkisútvarpsins. Við höfum líka fengið ábendingar, m.a. frá öðrum Norðurlöndum sem hv. þingmaður nefndi hér sérstaklega.

Það er rétt að ætlunin er til að mynda að skýra betur í þessu frumvarpi hlutverk stjórnar. Það þarf ekki að koma á óvart því að það hefur mjög oft verið rætt í þessum sal, m.a. í fyrirspurnum til mín, hvert er nákvæmlega hlutverk og ábyrgðarsvið stjórnar er og hvert er nákvæmlega hlutverk og ábyrgðarsvið ráðherra. Stjórn Ríkisútvarpsins setti sér starfsreglur sjálf í ár til að skýra betur sitt eigið verksvið af því að hún taldi það ekki nægilega skýrt. Ætlunin með frumvarpinu er að skýra það verksvið.

Það er ekki farið í neinar grundvallarbreytingar á til að mynda því formi sem þarna er til skoðunar, þ.e. ohf.-forminu, en ætlunin er að skýra betur þá hluti sem meðal annars hafa verið til umræðu í þessum sal, tryggja þetta fjárhagslega sjálfstæði ef það verður lendingin hér á Alþingi og fleira sem mun koma inn.

Hvað varðar stjórnarfyrirkomulag eru uppi hugmyndir sem við drögum meðal annars frá Noregi um að þingið skipi ekki beint í stjórn RÚV heldur tilnefni sérstaka valnefnd sem velji í stjórnina (Forseti hringir.) og snýr þá að því að safna þar saman nægilegri fjölbreytni í stjórn. Það mun auðvitað koma fram þegar frumvarpið verður kynnt.