140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

nýtt frumvarp um Ríkisútvarpið.

[15:33]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér kom hæstv. menntamálaráðherra því á framfæri, sem er jákvætt, að það á að taka á þessu með tekjustofnana, ég styð það. Það er mjög eftirtektarvert að þjónustutekjur RÚV hafa minnkað að raungildi um 900 milljónir síðan 2009. Þetta er ótrúlegur árangur sem er að nást í rekstri á þessari stofnun og enn þá stendur hún svona traust. Við berum sérstaklega traust til fréttastofunnar sem rís upp úr með 72%, en stofnunin í heild með 60%, þannig að þetta er gríðarlega mikilvægt hlutverk sem RÚV hefur bæði í menningu og varðandi almannahlutverkið og fréttaflutning.

Hins vegar sagði hæstv. ráðherra að breyta eigi hlutverki stjórnar RÚV og þar stendur hnífurinn í kúnni. Núna eru í stjórn RÚV fulltrúar frá flokkunum og ég held að þeir standi sig bara ágætlega, en ég tel að almenningur á Íslandi og stjórnmálamenn almennt vilji ekki breyta hlutverki stjórnar RÚV, alla vega ekki þannig að meiri (Forseti hringir.) pólitísk afskipti verði af stofnuninni. Það ber að minnka þau eins og hægt er, hafa þau eins og þau eru í dag eða minni en ekki meiri.