140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

skýrsla Norðmanna um EES-samstarfið.

[15:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Fyrir um tveimur árum ákvað norska utanríkisráðuneytið með Jonas Gahr Störe utanríkisráðherra Norðmanna í broddi fylkingar að fara í umfangsmestu vinnu á mati á EES-samningnum síðan Norðmenn sögðu nei við ESB á árinu 1994. Fengnir voru til þess starfs helstu sérfræðingar Norðmanna á sviði Evrópuréttar og vísindamenn bæði fylgjendur ESB og andstæðingar. Fundað var vítt og breitt um Noreg á þessum tveimur árum. Fredrik nokkur Sejerstad var formaður nefndarinnar og sá sem fylgdi þessu verki úr hlaði en þetta er mikill doðrantur upp á 900 blaðsíður.

Það kemur skýrt fram í þessari skýrslu að EES-samningurinn er ekki bara mikilvægur í evrópsku tilliti, hann er líka einn mikilvægasti norræni samningurinn sem undirritaður hefur verið á milli Norðurlandanna og samningurinn sem slíkur er mun umfangsmeiri en menn sáu fyrir árið 1992 og snertir í rauninni flest svið samfélagsins.

Evrópusambandið grípur samkvæmt þessari norsku skýrslu meira inn í hversdagslífið en menn almennt gera sér grein fyrir og talað hefur verið um. Menn benda meðal annars á að á sviði umhverfismála sé það í þéttu samstarfi við ESB til dæmis um mengunarkvótana, varðandi vinnu, velferð, rannsóknir, innflytjendur, lögreglusamvinnu, heilsu, mat á sveitarstjórnarstiginu og það má tína fleira til. Sejerstad og norska nefndin undirstrika að miklir hagsmunir séu fólgnir í EES-samningnum fyrir Norðmenn, þeir benda meðal annars á að þrátt fyrir þessi þrjú litlu EFTA-lönd, sem Noregur, Liechtenstein og Sviss eru, sé Noregur engu að síður fimmta stærsta viðskiptaland gagnvart ESB. 70% af norskum viðskiptum eru við ESB-löndin og það er langmikilvægasta viðskiptasvæðið eins og fyrir okkur, þrátt fyrir allt tal um Kína og Indland.

Samningurinn hefur varað lengur en samningamenn samningsins gerðu ráð fyrir upphaflega og hafa sagt í viðtölum, en hann hefur virkað mjög vel í öllum meginatriðum. Síðan samningurinn öðlaðist gildi hefur aðlögun og ákvarðanir á grunni samningsins og regluverks ESB verið teknar algjörlega óháð ríkisstjórnum. Og þegar menn skoða það að sex ríkisstjórnir hafa verið í Noregi, bæði vinstri og hægri stjórnir, þá hafa þær framfylgt samningnum algjörlega óháð þeirra pólitík. Það sama á við hér, það er alveg sama stefna. Enginn flokkur hefur haft það á stefnuskrá sinni, þrátt fyrir ýmsar raddir þar um, að segja sig frá EES-samningnum. Það er meðal annars dregið fram að ekki er mikið um uppákomur eða verulegar deilur milli Noregs og ESB vegna EES-samningsins. Um 6 þúsund nýjar tilskipanir og regluverk hafa verið sett inn í löggjöfina á þessum tíma, en eingöngu er um að ræða 17 tilvik í Noregi þar sem rætt hefur verið um hvort beita eigi neitunarvaldi. Við könnumst við pósttilskipunina, mig minnir að það hafi verið í tengslum við áfengisauglýsingar o.fl. sem Norðmenn hugsuðu um það.

En við verðum að horfast í augu við lýðræðishallann. Hann var til staðar árið 1994 og menn skulu ekki halda að gengið hafi verið alveg blint til verksins. Við skulum vera meðvituð um þennan lýðræðishalla og alveg eins og norska Stórþingið var upplýst um slíkan lýðræðishalla gilti það sama um Alþingi Íslendinga. Hitt er svo annað mál hvort sú vitneskja hafi verið almenningi nægilega kunn á sínum tíma og eining hvort hallinn sé meiri núna en menn reiknuðu með upphaflega.

Ef við látum okkur EES-samninginn nægja verðum við, þ.e. löggjafarvaldið sem og aðrir þættir ríkisvaldsins, að fara í markvissari hagsmunagæslu, m.a. í Brussel líkt og Norðmenn hafa gert. Störe segir meðal annars að þeir hafi náð eyrum ákveðins hluta Evrópusambandsins þótt það sé ekki sambærilegt við það að vera meðlimur. Þegar litið er til niðurstaðna norsku skýrslunnar sem heimfæra má að sjálfsögðu hér á Íslandi vil ég segja að þeir sem afbera yfir höfuð ekki neitt tal um fullveldisafsal landsins í allri rökræðu ættu að mínu mati að vera samkvæmir sjálfum sér og krefjast þá annaðhvort uppsagnar samningsins eða að fara hina leiðina að gerast meðlimir að ESB og hafa þannig vald og áhrif á það hvernig tilskipanir okkur tengdar líta á endanum út.

Ef við ætlum að búa við EES-samninginn skulum við segja það hreint út að við munum búa áfram við lýðræðishalla gegn því að fá verulega hagsmuni á móti. Þetta er hlutur sem á að vera öllum ljós. Í öðru lagi — og ég tel það vel viðunandi að halda áfram með EES-samninginn, þ.e. ef aðildarviðræðurnar ganga ekki eftir — er það alveg klárt af minni hálfu að við getum haldið áfram með EES-samninginn en við verðum að gera almenningi ljóst að það verður lýðræðishalli gegn miklum hagsmunum. (Forseti hringir.) Við þurfum að halda áfram að vinna að hagsmunum okkar, reyna að ná eyrum fólks úti í Brussel til að hafa áhrif á tilskipanir, og síðast en ekki síst verðum við að auka umræðu um þátt þessara tilskipana á löggjöf okkar og regluverk.