140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

skýrsla Norðmanna um EES-samstarfið.

[15:52]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég fagna þessari umræðu og þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að koma henni á dagskrá. Þetta er mjög mikilvæg umræða, en sú umræða sem fer hér fram í dag um þetta mál er hins vegar alls ekki nægjanleg. Hér er um að ræða norska skýrslu, skrifaða á norsku, um þúsund blaðsíður. Það þarf að sjálfsögðu að þýða hana og ræða hana sem skýrslu á vettvangi Alþingis en ekki á hálftíma þar sem almennir þingmenn hafa tvær mínútur til að ræða málið. Það er ekki boðlegt að þingið afgreiði svona mál með þessum hætti. Það þarf að ræða þessa skýrslu á vettvangi stjórnmálaflokkanna, á vettvangi atvinnulífsins, fræðasamfélagsins og í almenni umræðu. Sú afgreiðsla sem fer fram í dag er alls ekki nægjanleg og það er í raun sérkennilegt ef Alþingi lætur hér staðar numið miðað við mikilvægi málsins.

Það er brýnt að ljúka aðildarviðræðum að Evrópusambandinu, en þar sem ekki er útlit fyrir að svo stöddu að þjóðin vilji aðild er einmitt mjög brýnt að allir möguleikar um stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu séu skoðaðir og það í tíma, þar á meðal EES-samningurinn. Það er ekki hægt að ræða EES-samninginn með sömu formerkjum og gert er í dag, og framtíð hans, ekki frekar en hægt er að ræða aðild að Evrópusambandinu áður en aðildarumsóknin er kláruð.

Það þarf að vanda betur til þessara verka og hér ber Alþingi sjálft höfuðábyrgð á að það sé gert. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þetta hefur verið tekið upp tvisvar á fundi þingflokksformanna með forseta Alþingis en það hefur ekki fengið undirtektir forseta þingsins að fá þessa skýrslu þýdda. Það er Alþingi sem ber ábyrgð á þessum málum þegar upp er staðið og þessa norsku skýrslu ber að ræða á Alþingi sem slíka en ekki á handahlaupum eins og hér er gert í dag. Það er gott að fá þetta á dagskrá í dag. Þetta er þó vonandi eingöngu fyrsta skrefið í að taka til umræðu EES-samninginn en ekki að menn séu, eins og hefur verið gert núna af ræðumönnum á undan mér, að reyna að ræða efnisatriði (Forseti hringir.) EES-samningsins á tveimur mínútum. Það er fráleitt.