140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

skýrsla Norðmanna um EES-samstarfið.

[15:54]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðu um þessa skýrslu sem mér finnst þó fara út um víðan völl. Í rauninni finnst mér af lestri skýrslunnar eða niðurstaðnanna — ég er ekki búin að fara í gegnum allar 900 síðurnar frekar en hæstv. ráðherra — ekkert nýtt á ferðinni. Því er ekki haldið fram í norsku skýrslunni. Þetta er ekki ósvipuð skýrsla og gefin var hér út árið 2007 eftir vinnu nefndar allra flokka þar sem hæstv. utanríkisráðherra var annar fulltrúi Samfylkingarinnar.

Í skýrslunni kemur fram að EES-samningurinn hafi reynst Norðmönnum vel en að þeir hafi ekki sama aðgang að ákvarðanatöku ESB og ESB-ríkin enda eru Norðmenn ekki aðilar að ESB frekar en við. Þeir ætla ekki í ESB í kjölfar skýrslunnar.

Í fyrrnefndri Evrópuskýrslu sem var gefin út hér á landi árið 2007 kom fram í niðurstöðum og tillögum að nefndin teldi að samningurinn um EES hefði staðist tímans tönn, að hann væri sá grundvöllur sem samskipti Íslands og ESB byggðust á og að rétt væri að þróa áfram. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmd bæði EES-samningsins og Schengen-samninganna hefði almennt gengið vel.

Það kemur líka fram í sameiginlegri niðurstöðu fulltrúa allra flokka að það standi upp á íslensk stjórnvöld að nýta betur þau tækifæri til áhrifa sem felast í EES-samningnum, einkum með því að taka aukinn þátt í þeim 418 nefndum og sérfræðingahópum sem eru að störfum. Það kemur fram að við höfum bara tekið þátt í tæplega 200 nefndum. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hefur eitthvað verið gert með tillögur þessarar nefndar og athugasemdir sem þarna komu fram?

Vegna orða hæstv. ráðherra um áhyggjur hans af stjórnarskránni og því hvernig EES-samstarfið hefur þróast verð ég að vísa (Forseti hringir.) í kafla úr skýrslu hæstv. ráðherra um utanríkis- og alþjóðamál í fyrra, dagsetta 11. maí, þar sem hæstv. ráðherra lýkur miklu lofsorði á það hvernig (Forseti hringir.) þinglegri meðferð um EES-málin hefur verið breytt og að reynslan af því sé góð sem og reynslan af EES-samningnum. Ég held að ESB-umræðan (Forseti hringir.) geti farið í eina átt en við skulum ekki blanda EES-samningnum (Forseti hringir.) inn í þá umræðu vegna þess að við erum vel sett með (Forseti hringir.) EES-samninginn og það þarf ekki og breytir engu um lýðræðishallann að ganga inn í þetta samband.