140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

skýrsla Norðmanna um EES-samstarfið.

[16:02]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að vekja athygli á þessari viðamiklu norsku skýrslu sem er úttekt sérfræðinganefndar, eins og hér hefur komið fram. Ég tel að hún geti nýst okkur Íslendingum mjög vel. Við höfum ætlað nokkrum sinnum að gera slíka úttekt en ekki gert það. Það sem mér finnst vera áhugavert og kemur fram í skýrslunni er hversu stór hluti löggjafar Noregs er sniðinn að Evrópusambandstilskipunum. Ég er ekki viss um að allir hafi gert sér grein fyrir því hversu stór hluti löggjafar Íslands og Noregs er sniðinn að þessum tilskipunum, bara til að átta sig á umfanginu, hvað þær tilskipanir sem koma frá Evrópusambandinu hafa mikil áhrif á utanríkismálastefnu okkar og hvað þær hafa mikil áhrif á nær allt samfélagið og alla löggjöf hér á landi.

Í skýrslunni kemur líka fram og er nefnt sem mikill ókostur, að ljóst var þegar við gengum í EES árið 1994 að lýðræðishallinn yrði mikill, um er að ræða fullveldisafsal sem aukist hefur ár frá ári með breytingum og þróun í Evrópusambandinu. Fullveldisafsalið hefur aukist frá því að EES-samningurinn var gerður með þeirri þróun sem þar hefur verið.

Ég tel að við eigum að viðurkenna það og athuga vandlega hvað við getum gert í því núna. Við gerum það upp þegar við göngum til þjóðaratkvæðagreiðslu um umsóknina að Evrópusambandinu hvernig sem sá samningur eða niðurstaða liggur fyrir.

Ég er enn sömu skoðunar og ég hef alltaf verið, að okkur sé betur borgið utan Evrópusambandsins.

Sú markaðsvæðing sem orðið hefur og samkeppnishugsunin sem er í tilskipunum (Forseti hringir.) Evrópusambandsins er mjög alvarleg og á ekki við hér á landi, hún hefur leitt okkur í ýmsar ógöngur.