140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

skýrsla Norðmanna um EES-samstarfið.

[16:04]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég vil taka undir þá gagnrýni sem kom fram hjá hv. þm. Þór Saari. Ég trúi því hreinlega ekki að forseti þingsins ætli ekki að stuðla að því að um þessa skýrslu verði fjallað á miklu ítarlegri og dýpri hátt. Mér skilst að á fundi þingflokksformanna hafi komið fram að það sé í verkahring utanríkismálanefndar að láta þýða skýrsluna. Ég beini þeirri fyrirspurn til utanríkismálanefndar, ef einhver úr utanríkismálanefnd er í salnum, hvort það standi þá ekki til.

Það er líka mjög mikilvægt í þessu umræðum að fram komi hvernig við ætlum að nýta okkur skýrsluna. Mér finnst upphafið ekki lofa góðu, að afgreiða skýrsluna með tveggja mínútna ræðuhöldum á hvern þingmann.

Ég prentaði að gamni út hluta úr skýrslunni. Það vill svo til að ég skil norsku ágætlega, ég bjó einu sinni í Noregi, en ef ég ætti að fara að lesa upp úr henni fyrir ykkur yrði það ansi mikið hrognamál því að ég hef búið í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Mér finnst í raun ekki boðlegt að 900 blaðsíðna skýrsla, sem er mikilvæg við þessar kringumstæður þar sem við erum í aðildarviðræðum, fái ekki ítarlegri og betri umfjöllun hjá þinginu, því að við viljum með sanni hafa meira vald. Sýnum það þá í verki.