140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

skýrsla Norðmanna um EES-samstarfið.

[16:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Menn vissu það árið 1992 að þarna væri ákveðinn lýðræðishalli. Það áttuðu sig allir á því. Það sem hefur hins vegar gerst, og það er rétt sem fram kom hjá hæstv. utanríkisráðherra, er að sambandið hefur þróast og eins kemur fram í skýrslunni að áhrif EES-samningsins á löggjöf er meiri en menn ætluðu. Hvers vegna? Það er meðal annars vegna þróunar Evrópusambandsins. Lýðræðishallinn hefur aukist frá því sem upphaflega var áætlað.

Þess vegna er nauðsynlegt fyrir okkur að huga að þessu stjórnarskrárákvæði af því það er annað landslag í dag en þegar við samþykktum EES-samninginn. Ég tek undir með hæstv. utanríkisráðherra í þessu máli.

Ég vil líka draga það fram að við verðum að hafa alla valkosti uppi á borðinu. Við verðum að gæta að öllum valkostum í þessu máli. Ég er eindreginn talsmaður þess að við eigum að ljúka aðildarviðræðum þjóðarinnar við ESB og leyfa þjóðinni síðan að taka ákvörðun. En um leið verðum við að halda öllum valkostum opnum. Einn valkosturinn fyrir þjóðina er að halda áfram með EES-samninginn. Þess vegna verðum við að líta til þeirra skýrslna sem gerðar hafa verið, líta til þess hvernig Alþingi getur styrkt stöðu sína og gætt hagsmuna Íslands m.a. í Brussel þegar verið er að setja saman tilskipanir. Við sjáum Evrópu ganga í gegnum mikla erfiðleika og breytingar. Þær breytingar munu hafa áhrif á okkur Íslendinga alveg eins og Noreg, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Því er brýnt að menn átti sig á hver hin raunverulegu tengsl Íslands eru við Evrópusambandið, okkar mikilvægu nágranna og viðskiptaaðila, þannig að grunnur og tilefni sé til umræðu sem byggð er á þekkingu, staðreyndum og raunsæi en ekki á upphrópunum eða slagorðum.