140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

snjómokstur.

444. mál
[16:17]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að taka þetta mál upp. Það er algjörlega óboðlegt hvernig ástandið er í Árneshreppi á Ströndum og rakti hv. þm. Einari K. Guðfinnsson það vel hér áðan. Það er ekki hægt að bjóða nokkru byggðarlagi upp á það að engar samgöngur séu stóran hluta af árinu og enginn snjómokstur sé tryggður stóran hluta af árinu.

Við ræðum samgönguáætlun og það er ekki fyrr en í lok þeirrar áætlunar sem gert er ráð fyrir einhverjum vegaframkvæmdum á þessu svæði. Íbúar í þessu sveitarfélagi mega búa við það, ef fram fer sem horfir, að þetta ástand verði viðvarandi allt til ársins 2022. Það er algjörlega óboðlegt og á því verður að taka með pólitískri ákvörðun. Það þarf að taka ákvörðun um að íbúar í þessu sveitarfélagi njóti lágmarksmannréttinda (Forseti hringir.) hvað þetta snertir.