140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

snjómokstur.

444. mál
[16:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni fyrir að taka þetta mál upp. Þetta var rætt hér fyrir um tveimur árum og þá hélt ég að menn hefðu verið sammála um að þessar snjómokstursreglur væru úreltar. Þann 6. janúar taka menn ákvörðun um að hætta að moka snjó í 75 daga, og skiptir þá engu máli hvernig viðrar, hvort mögulegt er að moka án mikillar fyrirhafnar. Ég fullyrði að fólkið sem býr á þessu svæði gerir ekki kröfur um það að þegar illmögulegt er að moka, og fyrirséð að fljótlega muni fenna í aftur, sé það gert.

Þetta fólk fær engan afslátt á skattgreiðslum eða neitt annað sem lýtur að því að búa á þessu svæði. Ég vil líka minna á að það fólk sem býr á þessu svæði þarf að sækja læknisþjónustu til Hólmavíkur og það er mjög mikilvægt að ræða þessa hluti í því samhengi.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að endurskoða þessar snjómokstursreglur, að ekki sé sett stopp í 75 daga þegar hægt er að moka, það er löngu úrelt regla.