140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

þátttaka Íslendinga á ólympíuleikum fatlaðra.

297. mál
[16:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra svör hennar sem og hv. þingmanni Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir innlegg hennar. Ég fagna því að menntamálaráðherra ætli að setja um 3 millj. kr. af safnliðum í einmitt þetta verkefni, Ólympíuleikana. Ég tek undir að það er rétt, eins og hæstv. menntamálaráðherra benti á, að það er mun kostnaðarsamara fyrir Íþróttasamband fatlaðra að halda úti afreksstarfi þar sem alla jafna þarf einn aðstoðarmann fyrir hverja tvo keppendur þegar um er að ræða þátttöku fatlaðra íþróttamanna á erlendri grundu. Við verðum samt að hafa í huga að það var ekkert aukafjárframlag vegna Ólympíuleika á árunum 2009, 2010 og 2011.

Árangur Íslands á Ólympíuleikum fatlaðra frá árinu 1980 hefur einfaldlega verið glæsilegur. Þar hafa fatlaðir íþróttamenn unnið til 97 verðlauna og af þessum 97 verðlaunum eru 36 gullverðlaun. Af því að hæstv. menntamálaráðherra minntist á afrekssjóðinn sem tekur jú til allra íþróttamanna, fatlaðra og ófatlaðra, er það staðreynd, eins og við ræddum um daginn í svipuðum fyrirspurnatíma, að Ísland stendur öðrum þjóðum, og þá sérstaklega öðrum Norðurlandaþjóðum, langt að baki þegar kemur að fjárframlögum ríkisins til íþróttatengdrar starfsemi. Engu að síður gerum við miklar kröfur á þessu sviði og höfum miklar væntingar vegna þess að við vitum um forvarnagildið, við vitum hversu miklar fyrirmyndir þessir íþróttamenn eru, sérstaklega hjá fötluðum. Ég held að við verðum einfaldlega að gera betur en við höfum gert undanfarin ár.

Ég veit að vilji hæstv. menntamálaráðherra stendur til þess þannig að ég kvíði því ekki og vona að hún haldi merkjum fatlaðra (Forseti hringir.) hátt á lofti innan ríkisstjórnarinnar.