140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

íþróttaiðkun fatlaðra.

298. mál
[16:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir skýr svör. Ég lagði fram þessar fyrirspurnir, ekki bara tengdar íþróttum fatlaðra heldur fjölmargar fyrirspurnir varðandi íþróttastarf almennt, afrekssjóðinn okkar, aðra sjóði og samninga um íþróttastarf sem eru meira og minna lausir núna. Frá þeim tíma hefur menntamálaráðherra lagt fram íþróttastefnu, það hafa komið fram aukaframlög, en fyrir þann tíma var þessum málaflokki ekki sinnt nægilega vel að mínu mati. Ég held að það sé ljóst að nú þarf að fylgja þessu vel eftir.

Það liggur ekki fyrir varðandi íþróttastefnuna hvað fylgja henni miklir fjármunir. Það á eftir að fara í gegnum það í fjárlögum ríkisins. Ég tel engu að síður að núna þegar það er ólympíuár þurfum við að gera íþróttum verulega vel undir höfði. Við ætlum að standa okkur vel, við gerum þær kröfur jafnvel þótt við séum fámenn þjóð úti í miðju Atlantshafi. Við viljum að íþróttamenn fatlaðra nái glæsilegum árangri eins og þeir hafa gert hingað til.

Það er rétt að Íþróttasamband fatlaðra sér um sín málefni sjálft, ég ætlast ekki til að ríkisstjórnin fari að hafa afskipti af þeirra málum, en allt kostar þetta fjármuni og það þarf að taka þá umræðu á Alþingi eins og úti í samfélaginu.

Ég ítreka að ég þakka greinargóð svör hæstv. menntamálaráðherra og auðsýndan áhuga á málefninu.