140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

fjar- og dreifnám.

432. mál
[16:52]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir að vera mjög öflug við að halda þessari umræðu á lofti í sölum Alþingis, ekki er vanþörf á.

Hv. þingmaður fór ágætlega yfir niðurstöður starfshópsins um fjar- og dreifnám þannig að ég ætla ekki að eyða mínum tíma og annarra í að fara aftur yfir þær. Það sem var gert í kjölfarið, svo að ég komi beint að málinu, var að mennta- og menningarmálaráðuneytið bauð öllum framhaldsskólum að eiga aðild að samstarfshópi um eflingu fjarnáms til að fylgja eftir tillögum skýrslunnar sem starfshópurinn skilaði af sér haustið 2010. Tólf skólar þekktust það boð að koma inn í þetta samstarf. Það eru allt skólar sem hafa nýtt sér fjar- og dreifnám að verulegu leyti og tilnefndu þeir tengiliði í hópinn. Samstarfshópurinn fundaði svo reglulega árið 2011 og tók þátt í svokallaðri SVÓT-greiningu, þ.e. þar sem unnið er við að greina styrkleika, veikleika, ógnanir og tækifæri um fjar- og dreifnám og mótun framtíðarsýnar fyrir það kennsluform. Stofnuð var vefsíða fyrir verkefni þessara skóla þar sem allir höfðu aðgang að þeim gögnum sem tengdust stefnumótuninni og gátu skipst á skoðunum.

Fljótlega kom í ljós að sjónarmið framhaldsskóla voru allólík hvað varðaði mikilvægi stefnumiðunar. Í raun voru allir nema þrír stærstu fjarnámsskólarnir sammála um að stofna ætti formlegt samstarfsnet um fjarnám þar sem námsframboð væri samhæft og áfangar betur nýttir. Samhliða því skyldi stofnuð sameiginleg upplýsingaveita um fjar- og dreifnám þar sem skráning í áfanga yrði miðlæg, nemendur gætu tekið áfanga á milli skóla án sérstakrar greiðslu og þjónusta við þá yrði bætt. Þeir skólar sem eru stærstir á þessu sviði og bjóða flesta áfanga í fjarkennslu lögðust hins vegar gegn slíkri samhæfingu.

Í framhaldinu kusu nokkrir framhaldsskólar úr hópnum haustið 2011 að efna til óformlegs samstarfs um fjarnám. Skólarnir miðluðu upplýsingum sín á milli um þá fjarnámsáfanga sem þeir bjóða, þann fjölda nemenda sem óskaði eftir fjarkennslu og sömdu um að nemendur mundu greiða einungis eitt innritunargjald þó að þeir stunduðu nám í fleiri en einum skóla. Þá hófu fjórir framhaldsskólar á landsbyggðinni samstarf um að móta nýja braut í umhverfis- og auðlindafræðum sem þeir hafa hug á að kenna sameiginlega í fjar- og dreifnámi næsta haust.

Að mínu viti hefur þetta samstarf skilað nokkrum árangri og auðveldað nemendum að stunda fjarnám. Samvinnu lítilla skóla á landsbyggðinni um þróun sameiginlegra námsbrauta tel ég mjög vænlega. Hins vegar tel ég að stíga þurfi frekari skref í að bæta framboð og þjónustu vegna fjarnáms og finna leiðir til að auka hagkvæmni fjarkennslu, m.a. í ljósi skerðinga á fjárveitingum undanfarin ár.

Efling fjarnáms er líka mjög mikilvæg leið, eins og hv. þingmaður nefndi í máli sínu, til að stuðla að auknum gæðum og námsframboði fyrir nemendur á landsbyggðinni og til að skapa fámennum skólum tækifæri til að þróa nýjar námsbrautir í fjarkennslu sem um leið verða í boði á landsvísu. Þetta er líka mjög mikilvægur þáttur til að mynda þegar við ræðum um að stofna framhaldsdeildir til að nemendur geti verið sem lengst í sinni heimabyggð eða til 18 ára aldurs og stundað þar framhaldsskólanám, þá er þetta grundvöllur slíkra deilda.

Því hefur starfshópi innan ráðuneytisins verið falið að ljúka við heildstæða stefnumótun fyrir fjar- og dreifnám í framhaldsskólum, sem mun meðal annars taka til þessara þátta, og er ætlunin að ljúka þeirri vinnu á þessu vori. Samhliða stefnumótuninni verður áfram unnið að því að fylgja eftir þeim tillögum sem fyrir liggja í skýrslu starfshópsins og lúta að upplýsingaveitu framhaldsskólanna um fjar- og dreifnám.

Ég er sammála hv. þingmanni um það, af því hún nefndi aðeins háskólastigið, að á þessu grundvallast samstarfsnet hinna opinberu háskóla sem eru eiginlega þegar komnir í þann fasa að samnýta áfanga sín á milli með fjar- og dreifnámi. Ég held að við getum gengið lengra og þó að samstarfið sé komið nokkuð á veg milli hinna smærri skóla held ég að lykilatriðið sé að allir taki þátt í því.