140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

mælingar á dilkakjöti og beitarrannsóknir í Skutulsfirði.

447. mál
[17:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessi svör og þá umræðu sem hér hefur farið fram. Þetta mál er nokkuð snúið. Staðan virðist hafa verið sú að þegar gerðar eru mælingar annars vegar á díoxíninnihaldinu í kjötinu hafi þær verið fyrir ofan viðmiðunarmörk. Við þurfum að velta dálítið fyrir okkur hversu há og hversu hættulegt það er, en staðan virðist vera sú að þessi mörk hafi annaðhvort verið við eða heldur fyrir ofan þau gildi sem eru lögð til grundvallar þegar við metum þessa hluti.

Á þessum grundvelli, vegna þeirra viðbragða að ekki yrði tekið við afurðum af þessu fé og vegna þess að ekki er heimilað að nýta fóðrið úr Engidal, stóðu bændur frammi fyrir afarkostum. Þess vegna neyddist bóndinn í Efri-Engidal til þess að fara með fé sitt í sláturhús og skera niður allan sinn stofn. Nú kemur hins vegar fram í máli hæstv. ráðherra að beitarrannsóknirnar sýni fram á að þetta svæði henti til fjárbúskapar og annars búfjárhalds og þess vegna hafi verið tekin ákvörðun um að aflétta banni á nýtingu fóðurs frá svæðinu.

Þá er eiginlega komin upp skrýtin staða. Bóndinn hefur fellt stofninn sinn, það kostar mikið að hefja búreksturinn að nýju og nú segir hæstv. ráðherra að ríkið sé ekki skaðabótaskylt. Ég þekki þá löggjöf um beingreiðslurnar sem hæstv. ráðherra vék að, ég kom sjálfur að samningu hennar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Engu að síður er staðan þessi og mér finnst þetta harkaleg viðbrögð þegar maður skoðar málið í þessu ljósi. Bóndinn er eftir sem áður í afleitri stöðu og á ekki annarra kosta völ en að leita réttar síns í gegnum dómstóla.